139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir að hafa hlustað á fyrri hluta ræðu hv. þingmanns hugsaði ég með mér að ástæða væri til að koma hingað upp og þakka fyrir fyrstu málefnalegu ræðuna um þetta mál og þakka hv. þingmanni fyrir að hafa komið auga á ábyrgð sína sem þingmanns. Og ég virði við hann að hann nefnir þar sérstaklega eitt atriði sem honum þykir að hefði mátt afgreiða öðruvísi.

Síðari hluti ræðunnar veldur því hins vegar að ég get ekki haft uppi þau orð. Málið snýst á engan hátt um Sjálfstæðisflokkinn, málið snýst um lög sem stjórnarmeirihlutinn fékk samþykkt á þinginu, lög sem voru framkvæmd af ráðherrum þessarar ríkisstjórnar og Hæstiréttur hefur síðan dæmt þá framkvæmd ógilda. Um það snýst málið. Hvers vegna hv. þingmanni finnst Sjálfstæðisflokkurinn í einhverju meginhlutverki hér, flokkur sem aldrei átti frumkvæði að málinu, studdi það ekki á þinginu (Gripið fram í.) og hafði enga aðkomu að framkvæmdinni, (Forseti hringir.) að hann eigi að vera í kastljósinu er mér algjörlega óskiljanlegt.