139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[13:17]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það hefur því miður farið lítið fyrir því í þessari umræðu að rætt sé hvað taki nú við. Hæstiréttur Íslands hefur ógilt kosninguna til stjórnlagaþings 27. nóvember síðastliðinn og við sem styðjum stjórnlagaþing þurfum að ræða það hvernig við vinnum úr þeirri stöðu og hvernig við búum þannig um lög og reglur og framkvæmd að engin hætta sé á því að slík kosning verði ógilt að nýju. Það er verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Það þarf að fara í það verkefni með tilliti til niðurstöðu Hæstaréttar, rýna þar hvert einasta efnisatriði sem m.a. sýnir okkur að við getum væntanlega ekki, verði kosið á ný, haft rafræna talningu eins og hefur verið gert í löndunum í kringum okkur og telst þar löglegt, það getum við ekki því að það hefur áhrif á framkvæmdina, á tímalengd og ýmislegt annað. En aðalatriðið er að við sem stöndum að því að láta kjósa til stjórnlagaþings hér á landi beygjum ekki af leið heldur höldum áfram á þessari braut að teknu fullu tilliti til niðurstöðu Hæstaréttar.

Það liggur ljóst fyrir að ekki verður gengið aftur til kosninga um stjórnlagaþing að óbreyttum lögum og að óbreyttri framkvæmd þeirra kosninga. Það er því verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Það væri óskandi við þessa umræðu, um skýrslu hæstv. innanríkisráðherra, að hv. þingmenn leyfðu sér að ræða það og tækju sér kannski tíma til þeirrar vanmetnu iðju hér á landi að hugsa sinn gang og velta vöngum yfir stöðunni. Það eru nefnilega ýmsir kostir í boði. Við þurfum að velja réttu kostina. Væntanlega er hægt að kjósa til nýs stjórnlagaþings þannig að það kæmi saman síðar en í febrúar, hvenær sem það nú yrði, og að lög og reglur í kringum þá kosningu og framkvæmd yrðu þannig úr garði gerð að á öllum þeim atriðum sem fram koma í niðurstöðu Hæstaréttar léki enginn vafi og sett væri undir hvern einasta leka, eins og þar segir. Það er verkefni okkar.

Við getum auðvitað líka eytt heilum degi í að tala um fortíðina. Hér hefur mikið verið rætt um auðlindaákvæði í stjórnarskrá og breytingar á stjórnarskrá. Af því ég hef setið hér aðeins lengur en margur annar man ég að í aðdraganda kosninganna 2009, í málþófi Sjálfstæðisflokksins um stjórnarskrána, voru haldnar 600 ræður um fundarstjórn forseta. (Forseti hringir.)