139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

farþegagjald og gistináttagjald.

359. mál
[17:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargerðina, framlagningu málsins og þær ágætu undirtektir sem komu frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég held að þeir jákvæðu tónar sem slegnir voru viti á gott um meðferð málsins. Verið er að mæta stöðu sem við þekkjum að hefur verið á fjölsóttum ferðamannastöðum um landið, skort á aðgengi og framkvæmdum, nauðsynlegt er að finna leiðir til að fjármagna það. Hér eru tillögur um hvernig það megi gera.

Við í efnahags- og skattanefnd, þar sem ég er formaður, munum að sjálfsögðu taka málið til umfjöllunar og ræða með hvaða hætti megi einfalda innheimtu gjaldanna eins og hæstv. ráðherra spurði eftir. Við munum kalla eftir umsögnum aðila í ferðaþjónustunni og annarra haghafa á næstu vikum. Við munum leitast við að vinna úr málinu fljótt og greiðlega og koma með það til 2. umr. Ég vona að það takist þverpólitísk sátt um afgreiðslu málsins að það sé affarasælla að hafa almenna gjaldtöku en rukka inn á hverjum stað. Það er líklegra til að skapa sátt um málið.