139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[14:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég var kominn að því að tala um hvers lags fúsk hefur oft verið ríkjandi í lagasetningu í þinginu, sérstaklega varðandi skattamál á undanförnum tveimur árum. Sem dæmi um slíkt má nefna breytingu sem fól í sér tilraun til að skattleggja gengismun á innlánsreikningum í erlendum gjaldmiðlum.

Ýmsir ráðgjafar efnahags- og skattanefndar bentu á að ákvæðið væri óframkvæmanlegt þegar það var lögfest en á þau mótmæli var ekki hlustað. Þegar kom í ljós að aðferðin væri óframkvæmanleg og beinlínis órökrétt var lögunum breytt fyrir síðustu áramót. Hins vegar gleymdist þá að taka til baka reglu sem var í mótsögn við nýju leiðréttu regluna þannig að ekki er útséð með hvernig það endar.

Önnur lagabreyting byggði á reiknireglum sem fólu í sér stærðfræðilega þversögn. Einnig má nefna dæmi af skattkerfisbreytingu varðandi skattlagningu á eftirgjöf skulda sem leiðir til þess að það borgar sig ekki skattalega fyrir fyrirtæki að fjárfesta í vélum, húsnæði og öðrum fastafjármunum fyrr en eftir árið 2014. Það er nánast verið að reyna að halda fjárfestingu niðri með þessu skattkerfi.

Eftir breytingu á skattalögum í fyrra var fjölmörgum félögum í eigu erlendra aðila sem stundað hafa alþjóðlega fjármálastarfsemi hér á landi slitið og önnur eru enn þá í slitameðferð. Áætlaðar tapaðar skattgreiðslur vegna þessara fyrirtækja nema 3 milljörðum kr. á ári. Að auki hafa þessi félög keypt þjónustu af innlendum aðilum fyrir umtalsverðar fjárhæðir í mörg ár.

Ákvæði um skattlagningu arðs til hluthafa í félögum þar sem þeir starfa sjálfir hafa komið mjög illa við lítil fyrirtæki, ekki hvað síst nýsköpunarfyrirtæki þar sem frumkvöðlarnir starfa oft sjálfir. Afleiðingin er sú að fyrirtæki flytja í burtu, einkum nýsköpunarfyrirtæki þar sem frumkvöðlar eru oft hluthafar, fyrirtæki eru í staðinn stofnuð erlendis og hagnaðurinn skilinn eftir þar. (Forseti hringir.) Mér skilst, frú forseti, að tíminn sé liðinn en ég mun snúa aftur.