139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[15:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Einfalt skattkerfi skilar ekki nauðsynlega efnahagslegum framförum. Þannig var það einmitt í þeim ríkjum Evrópu þar sem skattkerfin voru einföldust, þar sem efnahagskerfin hrundu eins og spilaborgir í fjármálaerfiðleikunum, á Íslandi, í Eystrasaltslöndunum og Austur-Evrópu.

Velferðarríki Norður-Evrópu byggja ekki á einföldum skattkerfum heldur á sanngjörnum og hvetjandi skattkerfum. Það er það verkefni sem við okkur blasir. Hver er dómurinn um fyrstu skref ríkisstjórnarinnar í þessu? Jú, Þjóðmálastofnun hefur tekið út árið 2009 og það sýnir sig að skattbyrði heimilanna í landinu er lægri en hún var áratuginn frá 1996–2006 (Gripið fram í.) og að láglaunafólkinu er sérstaklega hlíft í þeim miklu erfiðleikum sem við búum við. Er óhæfilega langt gengið í því að taka af kökunni? Þegar kakan var sem stærst tók ríkissjóður 1/3 hluta hennar. Nú þegar hún hefur minnkað til mikilla muna höfum við skorið skattana niður í það að vera rétt ríflega 1/4 hluti af kökunni. Við minna verður ekki búið ef við ætlum að reka velferðarríki á Íslandi með skuldugan ríkissjóð.

Í einu gætum við þó breytt verulega skattaáherslum okkar. Við höfum kannski gengið býsna langt í því að skattleggja vinnu með launasköttum og gengið allt of skammt í því að skattleggja þann mikla arð sem er af auðlindum landsmanna, fiskinum í sjónum sem skilar sérhagsmunaöflum í samfélaginu tugmilljörðum króna í hagnað á ári hverju (Gripið fram í: Bara orkunni …) meðan skattar á öllum almenningi hafa verið þandir til hins ýtrasta. Það er kominn tími til þess við stjórn landsins að taka þar á (Forseti hringir.) og taka af þeirri köku í þágu almennings í landinu.