139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

385. mál
[16:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur atriði vegna þessarar ræðu. Það er alveg rétt að þær tölur sem nefndar eru um hagræðingu og sparnað eru blanda af líkindareikningi og ásetningi vegna þess að við erum að tala um fyrirsjáanlegan niðurskurð hjá hinu opinbera hjá þessari stofnun sem og öðrum. Þetta er spurning um að mæta slíkum kröfum. Þá er spurningin: Hvort er betra stór stofnun eða smá?

Ég hef velt þessu nokkuð fyrir mér og tel að menn hafi oft gert of mikið úr ávinningi af sameiningu stofnana. Ég hreifst mjög af ágætum samlíkingum sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson setti einhvers staðar fram af þessu tilefni, sagði að það væru til búðir sem sérhæfðu sig í því einu að framleiða pitsur og svo væru aðrar sem seldu allt milli himins og jarðar; sinnep, klemmur, pitsur, slátur, mjólk o.s.frv. og báðar gengju ágætlega upp, spurning væri samhengið og tilgangurinn. Þannig held ég að oft hafi verið um þessa stofnanaumræðu, hún hefur gengið svolítið í tískubylgjum. En hitt hef ég sannfærst um að að mörgu leyti er betra og ávinningur af því að hafa stórt svið undir sama þaki. Það er vegna þess að stofnanir eiga iðulega erfitt með að laga sig að breyttum kröfum í samfélaginu. Þær eiga erfitt með að lognast út af ef þess þarf og erfitt með að skreppa saman eða stækka eftir atvikum, hver sem krafan er um þjónustu. Innan stofnunar undir stóru þaki eru hins vegar miklu meiri möguleikar á að skreppa saman og þenjast út án þess að stofnunin sé öll undir. Þannig er fólginn í því ákveðinn ávinningur að setja þessa starfsemi undir sama þak.

Varðandi staðhæfingar um að hið opinbera þurfi að skreppa saman þá er ég ekki alveg sannfærður um að það sé endilega hagræði í því fyrir samfélagið vegna þess að velferðarþjónustan byggir á því að skapa hagkvæmar lausnir fyrir fjölskyldur og efnahagslíf. Við greiðum ekki laun í samræmi við að fólk sé að koma sér upp húsnæði alla ævina eða innan heimilisins sé einhver veikur alla ævina heldur mætum við þessum sveiflum með velferðarkerfi sem tekur á móti fólki sem veikist, sem aðstoðar þá sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið og þar fram eftir götunum. Öflugt velferðarkerfi kemur í stað rándýrra einkalausna og þjónar þannig fjölskyldum og atvinnulífi. Það er því vanhugsað að horfa til þess að augljós ávinningur sé af því að skera niður útgjöld til hins opinbera.

Að lokum eru það gjaldskrárhækkanirnar. Ekki er um að ræða heimildir til gjaldskrárhækkana heldur lögbundin gjöld sem koma ekki aftan að neinum og ég gat um áðan, þ.e. lofthæfisskírteinin. Við erum að tala um eftirlitsgjöld sem hækka samkvæmt verðlagsþróun.

Ég þakka fyrir ágæta umræðu. Þetta er nefnilega mjög stórt mál sem skiptir marga miklu máli og ég vona að umræðan skili okkur sem samfélagi ávinningi inn í framtíðina.