139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála.

407. mál
[16:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Eins og málið er lagt upp hefði þess vegna verið æskilegra að fagnefndin sæi það fyrr. Við þurfum kannski að breyta því, hæstv. innanríkisráðherra þarf að breyta því, að áður en mælt er fyrir málum á þingi þyrfti að kynna það fyrir fagnefndum. Maður er að velta upp spurningum sem kannski er augljóst svar við og það fólk sem vinnur frumvörpin gæti að sjálfsögðu svarað þeim.

Hæstv. ráðherra sagði: Þetta hefur ekki áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Ég skil það eins vegna þess að annars vegar er hætt að rukka skattinn og hins vegar eru greidd þessi gjöld. Í dag er innheimtur nefskattur og þá hlýtur hann að vera á alla íbúa landsins, eins og nefskattar eru. Það getur ekki verið bara nefskattur á þá íbúa sem nota flugið, ég trúi því ekki.

Með því að gera þetta svona og að þetta hafi ekki áhrif á flugrekstraraðilana, eins og hæstv. innanríkisráðherra sagði, sem gefur augaleið vegna þess að þeir setja bara í gjaldskrána það sem þeir minnka hjá ríkinu, eins og ég skil þetta, þarf flugrekstraraðilinn að sjálfsögðu að hækka fluggjöldin til að ná inn þessum tekjum.

Í stórum dráttum, eins og ég skil það, munu Íslendingar sem allir borga nefskatt ekki gera það lengur, heldur eingöngu þeir sem nýta þjónustuna og borga þá notendagjöld. Þá spyr ég, ef þetta er réttur skilningur hjá mér: Hver er sanngirnin í því að þeir sem hafa ekki vegi til að keyra skuli borga hærri gjöld til að fá að fljúga þegar aðrar samgöngur eru ekki í boði? Það er spurningin sem situr eftir í mínum huga.