139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er af mörgu að taka undir liðnum um störf þingsins. Eitt af því sem fréttir berast af núna er að það er búið að segja upp öllum starfsmönnum Læknavaktarinnar. Við þekkjum að það er þjónusta sem hefur verið veitt í áratugi og er afskaplega mikilvægur hlekkur í þeirri heilbrigðisþjónustu sem við teljum eina þá allra bestu í heimi og ekki að ástæðulausu. Það hefur ótrúlega lítið farið fyrir umræðu um þessi mál og ég hefði viljað heyra sjónarmið hv. formanns heilbrigðisnefndar, Þuríðar Backman, hvort hv. þingmaður viti hvar þetta mál er statt og hver næstu skref í því eru. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hv. heilbrigðisnefnd verði upplýst um málið því að við skulum vera alveg meðvituð um að ef þessi þjónusta fellur niður og ekkert kemur í staðinn — það getur þá ekki verið neitt smáræði — munum við sjá fram á gríðarlegan vanda í heilsugæslunni, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Heilsugæslan eins og hún er núna mun ekki geta tekið á móti þeim sjúklingum sem sækja þjónustu til Læknavaktarinnar.

Virðulegi forseti. Ég vildi draga athygli þingheims að þessu og fá að heyra sjónarmið hv. þm. Þuríðar Backman um þetta mál, hvar það sé statt og hver næstu skref verði. Það er ekki smámál, virðulegi forseti, að öllum starfsmönnum Læknavaktarinnar sé sagt upp vegna þess að menn ná ekki saman um þá þjónustu. Það er stórmál í öllum skilningi.