139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

sala fyrirtækja í almannaeigu -- Íbúðalánasjóður -- Læknavaktin o.fl.

[14:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag hefjast Icesave-umræður á ný og því er rétt að rifja upp að íslenska ríkið lagði Nýja Landsbankanum til 280 milljarða í morgungjöf. Þess vegna langar mig til að benda á þá staðreynd að Vestia var selt út úr hinum nýja Landsbanka á tæpa 16 milljarða og í gær bárust þær fréttir að Vestia hefði hafnað tilboði Trítons upp á tæpa 60 milljarða. Þetta eru staðreyndirnar sem við stöndum frammi fyrir. Þau kaup hafa gengið til baka en þarna er augljóslega verið að benda á að Nýi Landsbankinn er raunverulega að borga niður tap lífeyrissjóðanna úr hruninu.

Mér finnst þetta mjög alvarlegt, sérstaklega í ljósi þeirrar ræðu sem hv. þm. Þór Saari flutti áðan um ábyrgðarlausar lánveitingar og loforð hæstv. fjármálaráðherra um endalausa ríkisábyrgð á þá fjármálagjörninga sem undir liggja. Þarna hefur komið í ljós að Nýi Landsbankinn, og þar með skattgreiðendur, áttu raunverulega að rétta af stöðu lífeyrissjóðanna, þ.e. þeirra lífeyrissjóða sem eru í Framtakssjóði Íslands. Þar var farið af stað með mjög loðið söluferli og ýmsar ástæður gefnar fyrir því, mjög einkennilegar í viðskiptalífinu. En nú hafa þessir sömu aðilar heitið því og lofað að fara að lögum eins og Hæstiréttur talaði um í stjórnlagaþingsmálinu: Förum að lögum til að reglurnar virki. Framtakssjóðurinn bakkaði sem betur fer út úr (Forseti hringir.) þessum samningi og nú er loforð um betra sumar varðandi það hvað verður um fyrirtækin í Vestia. (Forseti hringir.) Förum að lögum, allir.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)