139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna ábendingu hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur vegna þess að þetta er að mínu mati grafalvarlegt mál. Það liggur fyrir undirskrifað samkomulag forseta Alþingis og formanna þingflokka á Alþingi um með hvaða hætti skuli vinna Icesave-málið. Formaður fjárlaganefndar kýs að rjúfa það samkomulag með þegjandi samþykki formanna annarra þingflokka nema hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur og með þegjandi samþykki forseta Alþingis og skipa fjárlaganefnd til verka í jólahléi þingsins á sama tíma og hún sjálf hugðist vera fjarverandi.

Mér finnst þetta svo alvarleg og svo einkennileg staða að ég tel fyllilega réttlætanlegt að það komi fram í umræðu á þinginu og í nefndaráliti. Ég tel það svo alvarlegt að við höfum sent ábendingu um þetta til annarra handhafa forsetavalds og til forseta Íslands, því að Alþingi á ekki og síst af öllu forseti Alþingis að mínu mati — það getur verið að aðrir telji það í lagi en ég tel það ekki í lagi — að ganga fram hjá og rifta undirskrifuðu samkomulagi sem fólk hefur gert.