139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Á undanförnum missirum höfum við horft upp á hvert klúðrið á fætur öðru í íslenskum stjórnmálum. Í langflestum tilvikum hefur verið um að ræða klúður sem hægt hefði verið að komast hjá ef menn hefðu bara farið yfir allar staðreyndir málsins og metið þær á rökréttan hátt. Stundum hefði þurft að gefa sér smá tíma til að afla allra nauðsynlegra upplýsinga og að rökræða hlutina skynsamlega.

Nú ræðum við mál þar sem er nánast óumdeilt, heyrist mér, að lögin segja eitt en við ætlum að gera annað, þ.e. það er engin lagaskylda á íslenska ríkinu að taka á sig þær kröfur sem mælt er fyrir, en menn ætla samt að gera það. Menn geta svo sem haft ýmsar ástæður fyrir því aðrar en lagalegar. Við getum velt þeim fyrir okkur á eftir.

Byrjum nú á að setja málið aðeins í samhengi og rifja upp aðdragandann síðustu missiri.

Íslendingar voru beittir hryðjuverkalögum. Fyrir nokkrum dögum var rætt, vegna tillögu ýmissa hv. þingmanna undir forustu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, um að höfða skaðabótamál á hendur Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaga og þess gríðarlega tjóns sem af þeim leiddi. Í því hefur ekkert verið gert. Það tjón hefur á engan hátt verið bætt. Íslendingar hafa hins vegar sýnt breskum stjórnvöldum alveg ótrúlegt langlundargeð og verið tilbúnir að ganga býsna langt, í rauninni ótrúlega langt, í því að hafa Bretana góða í Icesave-deilunni sem staðið hefur svo lengi og menn ætla enn að reyna að leysa, nú með nýjum samningum. Fallist var á það eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem var eins afgerandi og hugsast getur — menn samþykktu 98:2 að fallast ekki á það sem nú er kallað Icesave 2 — að hefja enn og aftur viðræður við Breta og Hollendinga, að gefa séns og leysa málið í sátt og samlyndi. En á hvaða forsendum var það gert?

Farið var yfir það að allir flokkar mundu fallast á það, ef farið yrði í viðræður á þeim nótum, að þrotabú Landsbankans yrði notað til að standa straum af kostnaðinum, enda er það hin eðlilega leið. Breska og hollenska fjármálaráðuneytið eiga kröfu í þrotabú bankans og er eðlilegt að það beri tjónið. Við vildum aðstoða Breta þrátt fyrir allt sem þeir höfðu gert á okkar hlut alveg frá beitingu hryðjuverkalaganna, með misnotkun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópska fjárfestingarbankans, við vildum samt leita leiða til að hafa þá góða og finna í sameiningu leið til að þeir fengju tjón sitt bætt úr þrotabúinu.

Þá hófust viðræður á þessum nótum í nokkra daga, en það kom ekkert út úr þeim og fulltrúar þessara þjóða, Breta og Hollendinga, fóru að huga að kosningum í heimalöndum sínum. Leið nú og beið og ekkert gerðist, en þá fór fjármálaráðuneytið íslenska allt í einu á stúfana, fór að hringja út og reyna að endurvekja þessar viðræður. Ég veit svo sem enn ekki hvers vegna það var, af hverju mönnum lá svona á, af hverju Íslendingar vildu hafa frumkvæðið að því að hefja aftur þessar viðræður, að fá Breta til þess að koma aftur og halda áfram innheimtuaðgerðum sínum, en íslenska fjármálaráðuneytinu tókst að koma viðræðunum af stað aftur. Að nokkru leyti voru þær milli embættismanna í ráðuneytunum.

Ég og aðrir í stjórnarandstöðu, eftir því sem ég best veit, og líklega flestir þingmenn, fylgdumst með þessum viðræðum fyrst og fremst í gegnum fjölmiðla, þegar eitthvað lak í fjölmiðla um að enn væru farnar af stað þreifingar og að nýir Icesave-samningar væru að nást. Nokkrum sinnum komu fréttir af því að það væri alveg að fara að gerast. Þær reyndust ekki alltaf á rökum reistar fyrr en núna fyrir skömmu síðan að þá voru allt í einu farnar af stað alvöruviðræður og við funduðum fyrir vikið með fulltrúum úr samninganefndinni. Féllumst við á að samninganefndin fengi að koma heim með nýjasta tilboð Breta og Hollendinga og kynna okkur það, en tókum skýrt fram svo enginn efi gæti verið í huga nokkurs manns að með því værum við ekki að fallast á það tilboð, það fæli bara í sér að við ætluðum að líta á hvernig Bretar og Hollendingar vildu leysa málið. Tilboðið kom og við þingmenn höfum verið að skoða það núna undanfarnar vikur hver fyrir sig og fjárlaganefndin hefur leitað álits hjá hinum og þessum. Niðurstaðan er nú ljós: Þetta er miklu betra tilboð en við höfum séð áður, það er alveg á hreinu. Meira að segja hafa stjórnarliðar þurft að viðurkenna það þrátt fyrir tiltölulega aumt yfirklór þar sem því er haldið fram að þar komi inn kostnaður á móti sem engum hefur tekist að útskýra hver sé. Það er mjög einfalt bara með því að líta á opinberar tölur frá fjármálaráðuneytinu að sjá að munurinn nemur 400–500 milljörðum kr. Svo hafa nokkrir stjórnarliðar gert einhverjar tilraunir til þess að afvaxta upphæðina niður í 100–200 milljarða en á mjög órökréttan hátt með aðferðum sem ekki fá staðist.

Í öllu falli er ljóst að munurinn nemur yfir 70% á þessum tilboðum. Þá spyrjum við enn: Ja, á þá bara ekki að klára þetta á þeim nótum? Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, talaði hér áðan og þegar hann var spurður spurninga spurði hann aðallega spurninga á móti, hvort Framsóknarflokknum hefði ekki verið nein alvara með þátttöku sinni í viðræðunum fyrst hann féllist ekki á nýjasta tilboðið. Þýddi það þá ekki að engin hefði alvara verið á bak við þátttöku í viðræðunum?

Ég las á einhverjum vefmiðli áðan að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið ákvörðun um afstöðu sína í málinu í morgun. Ef ákvörðun Sjálfstæðisflokksins hefði orðið önnur, ef hún hefði orðið sú að ætti ekki að styðja málið, hefði þá ekki verið nein alvara í þátttöku Sjálfstæðisflokksins í viðræðunum undanfarna mánuði svo langt sem hún náði? Þetta er því einfaldlega órökrétt. Menn hljóta að leggja mat á það tilboð sem liggur fyrir og hvort það sé ásættanlegt. Munurinn er mikill en menn mega ekki alveg gleyma sér í því einu að skoða muninn, menn þurfa líka að skoða hvað stendur eftir, ella væri einfaldlega hægt að semja um öll mál með því að bjóða fyrst nógu hræðilegan samning og síðan töluvert skárri samning í staðinn.

Áætlað hefur verið að kostnaðurinn, tala sem nefnd var þegar samningur var kynntur, kynni að vera í kringum 50 milljarðar á nýja samninginn. Þar er reyndar um að ræða peninga sem fara út úr hagkerfinu, verður skipt í erlenda mynt og veltast ekki áfram í hagkerfinu, 50 milljarða sem færu annars í eitthvað innan lands. Það jafngildir í rauninni kostnaði upp á a.m.k. 100 milljarða inni í landinu. Það er töluverð upphæð t.d. ef við setjum það í samhengi við þann niðurskurð sem við höfum horft upp á að undanförnu á Íslandi. Til að mynda 3 milljarðar í heilbrigðisþjónustu. Þeir peningar runnið hefðu til að greiða laun Íslendinga fyrst og fremst og velkst áfram í hagkerfinu. Þarna er um að ræða margfalda þá upphæð. Það eru alvörupeningar þótt upphæðirnar hafi verið meiri í hinu fráleita upphaflega tilboði.

Uppsafnaðir vextir, sem þegar voru komnir til skjalanna við síðustu áramót, nema 26 milljörðum. Ef við notum þumalputtaregluna um margföldunaráhrifin eru það yfir 50 milljarðar sem þegar hafa safnast upp og þarf nú að standa straum af. Það er eins og allur niðurskurðurinn á síðustu fjárlögum. Með þessu nýja tilboði hugsa menn sér nefnilega að Íslendingar greiði vexti langt aftur í tímann og í rauninni fyrir þann tíma þegar innstæðutryggingarsjóðurinn átti að borga út.

Þessar upphæðir, eins háar og þær eru, eru kannski ekki megináhyggjuefnið við nýja samninginn því að áhættan liggur eftir sem áður öll hjá Íslendingum. Það er til að mynda alveg óljóst hvenær farið verður að greiða út úr þrotabúi Landsbankans. Þar hafa menn leyft sér að vera bjartsýnir og segja: Ja, þetta fer nú að klárast á næstu mánuðum, þá er hægt að fara að borga út og þá greiðum við skuldina niður hratt og fáum ekki á okkur allan þennan mikla vaxtakostnað. En menn vita ekkert um það. Dæmin sýna reyndar að þegar bankar hafa orðið gjaldþrota áður annars staðar að það tekur óhemjulangan tíma að fara að greiða út vegna þess að menn vilja leysa öll ágreiningsmál. Þá þykir ágætt að reka bankann í þeirri mynd sem hann er núna í millitíðinni. Við vitum því ekkert hvort það verður 2012, 2015 eða þess vegna 2020 sem farið verður að greiða út úr þrotabúi Landsbankans. Ég nefni ártalið 2020 ekkert út í loftið. Það eru dæmi um það, t.d. í Japan þar sem bankar urðu gjaldþrota kringum 1990 og það er ekki enn búið að gera upp þrotabú þeirra banka.

Enn þá meira áhyggjuefni er að eignir þrotabúsins eru að langmestu leyti áhættufjárfestingar, til að mynda verslanakeðjan Iceland, sem sá ég einhvers staðar að er metin á yfir 200 milljarða kr. En fyrir ekki svo löngu var þessi sama verslanakeðja metin á nánast ekki neitt, talin u.þ.b. gjaldþrota. Sveiflurnar eru því miklar. Það getur mikið breyst á skömmum tíma. Halda einhverjir að fjármálakrísunni sé lokið í Evrópu? Er ekki flest sem bendir til þess að við eigum eftir að fara í gegnum töluverðar niðursveiflur sem muni þá til að mynda hafa áhrif á verðmæti fyrirtækja og annarra áhættufjárfestinga á næstu árum?

Svo er það gengi krónunnar, það má ekki falla mikið frá því sem nú er. Reyndar er nú hálffráleitt að í þeirri viðmiðun sem ég vísaði í áðan, þessum 50 milljörðum, er reiknað með gengi krónunnar á seðlabankagengi. Það er ekki raunverulegt gengi íslensku krónunnar vegna þess að íslenska ríkið getur ekki orðið sér út um endalaust magn erlends gjaldeyris á því gengi sem það langar að miða við, ekki nema það ætli beinlínis að halda áfram að taka gjaldeyri af þeim sem afla hans og borga fyrir það sem ríkið er tilbúið að láta fyrir. Svo geta innbyrðisgengissveiflur milli pundsins og evrunnar haft gríðarlega mikil áhrif líka. Til að benda á hversu miklar sveiflurnar geta verið má til að mynda vísa í álit ráðgjafarfyrirtækisins GAMMA sem skilað var til fjárlaganefndar þar sem fram kemur að ekki þurfi verulega veikingu á gengi krónunnar og verulegar tafir á greiðslutíma þrotabúsins — mig minnir að þeir hafi talað um árið 2012 þar — til þess að kostnaður ríkisins færi úr þessum 50 milljörðum upp í 233 milljarða. Ef 50 milljarðar eru alvöruupphæð, jafngilda 100 milljarða kostnaði innan lands, hvað eru þá 233 milljarðar, sem þetta gæti svo hæglega orðið á svo skömmum tíma?

Eins og ég nefndi áðan virðast menn almennt vera orðnir sammála um að lagaskylda hvíli ekki á íslenska ríkinu. Um það var jafnvel getið í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sjálfrar í umræðum um Icesave 2. En hins vegar hafa sumir haft dálitlar áhyggjur af því að dómsmál væri svo áhættusamt, væntanlega vegna þess að Evrópudómstóllinn, ef menn vilja líta til hans, gæti verið pólitískt apparat og menn mundu misbeita honum. Ég skal ekki segja um það, en við skulum samt hafa í huga að það kæmi til kasta íslenskra dómstóla á endanum ef menn ætluðu að innheimta af íslenska ríkinu. Svo hafa menn leyft sér að fara mjög frjálslega með yfirlýsingar hinna ýmsu manna, m.a. leyft sér að vitna í Lee Buchheit, formann samninganefndarinnar, og halda því fram að hann hafi óttast dómsmál. Ekkert er fjær lagi. Hann sagði frá upphafi að staða Íslendinga væri sterk og hann hefði haldið allt öðruvísi á málinu og verið tilbúinn að fara með það fyrir dómstóla hefði hann ekki verið að vinna fyrir fjármálaráðuneytið samkvæmt leiðbeiningum þess.

En er áhættan af dómsmáli svo mikil fyrir Íslendinga eða er hún mikil fyrir Breta og Hollendinga? Ef þeir tapa málinu er allt innstæðutryggingarkerfi Evrópu væntanlega komið í uppnám. Ef þeir hins vegar vinna málið og Íslendingar tapa því, í hverju lendum við þá? Þá þurfum við að borga nákvæmlega sama og verið er að fara fram á að við borgum núna, vegna þess að niðurstaðan sem kynnt er sem ásættanleg niðurstaða vegna þess að hún sé svo miklu betri en sú hræðilega sem við horfðum fram á áður, felur í sér að Íslendingar gera allt sem þeir voru beðnir um. Þeir borga þessar 20 þúsund evrur á hvern reikning og vexti — allan kostnað Breta og Hollendinga af því að hafa greitt það út. Hvar liggur þá hin raunverulega áhætta?

Sumir segja neyðarlögin, að við þurfum að fallast á þetta vegna þess að annars höfði menn hugsanlega mál út af neyðarlögunum og þá kunni tjónið að verða svo margfalt meira. Í fyrsta lagi losna menn ekki við málaferli vegna neyðarlaganna með því að semja við Breta og Hollendinga, þau málaferli standa nú þegar yfir. Í öðru lagi hafa fáir, líklega engir, jafnmikla hagsmuni af neyðarlögunum og breska og hollenska fjármálaráðuneytið, ef frá er talin íslenska þjóðin, vegna þess að með neyðarlögunum og endurröðun á forgangi í hinum gjaldþrota bönkum eru eigur Breta og Hollendinga, þær innstæður sem stjórnvöld í þessum löndum hafa tekið yfir, settar í forgang. Það þýðir að þeir munu að öllum líkindum fá allan höfuðstólinn endurgreiddan úr þrotabúinu, hvað sem líður samningum um Icesave. Yfirleitt þætti mönnum það býsna gott þegar þeir lána fyrirtæki sem verður svo gjaldþrota að fá allt lánið greitt til baka. Það er hins vegar óheyrt að í gjaldþrotamálum sé verið að borga vexti til lánveitandans sem hafði lánað gjaldþrota fyrirtækinu, en það er það sem Bretar og Hollendingar ætlast til af Íslendingum. Ekki nóg með að þeir hafi valdið okkur gífurlegu tjóni á okkar erfiðasta tíma efnahagslega, og beitt áhrifum sínum í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópska fjárfestingarbankanum til þess að reyna að kúga okkur — nei, þó að þeir fái allt sitt bætt, allan höfuðstólinn hjá gjaldþrota fyrirtæki á ábyrgð Íslendinga, ætla þeir líka að innheimta vexti.

Hvað horfum við þá fram á? Við horfum einfaldlega fram á að verið er að samþykkja kröfur Breta og Hollendinga með reyndar töluvert lægri vöxtum en stefndi í. Prinsippið er hins vegar það sama og áhættan er að miklu leyti sú sama.

Svo hefur því verið haldið fram af ýmsum og oft og lengi að ýmsar hindranir hafi verið við endurreisn íslensks efnahagslífs vegna þessa. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að í samskiptum við erlenda bankamenn heyrðu menn að það væri einhvers konar hindrun. Það er tóm vitleysa ef menn skoða málið. Ég hef spurt bankamenn sem hitt hafa kollega sína í útlöndum út í þetta: Hvaða máli skipti Icesave? Icesave skiptir engu máli. Hins vegar hafa menn mjög miklar áhyggjur af þjóðnýtingartilburðum ríkisstjórnarinnar, svo ekki sé minnst á skattahækkunarstefnu undir kjörorðunum „You ain't seen nothing yet“. Mennirnir sem standa að þessu leyfa sér síðan að halda því fram að einhverjar deilur, ágreiningsmál, milli ráðuneyta þar sem Íslendingar biðja ekki um annað en lagalegan rétt sinn og eru tilbúnir að verja hann fyrir dómstólum, setji allt í uppnám og valdi því að lokað sé á Ísland. Að menn skuli leyfa sér að koma hér enn og halda þessum málflutningi fram sem verið hefur afsannaður rækilega á undanförnum tveimur árum, er algjörlega óásættanlegt að mínu mati því að allar hrakspárnar — ég veit ekki hvort menn muna eftir þeim því að þær voru svo ótalmargar og fjölbreytilegar: Kúba norðursins og Norður-Kórea vestursins. Það átti einfaldlega allt að hrynja hér ef menn gengju ekki að kröfunum á sínum tíma. Ekkert af því hefur staðist enda var það allt órökrétt. En enn eru menn ekki farnir að beita rökhugsun við lausn þessa máls.

Annað sem haldið var fram var að ef við ykjum ekki á skuldir okkar í erlendri mynt mundi gengi íslensku krónunnar veikjast meira. Meira að segja héldu hagfræðingar fram þeirri fjarstæðu. Og ef við ykjum ekki á skuldir ríkisins svo gífurlega sem gert var ráð fyrir í gömlu samningunum mundi enginn vilja lána okkur vegna þess að skuldatryggingarálagið færi norður og niður.

Hver var raunveruleikinn? Þegar menn sáu í hvað stefndi í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave — þar varð viðsnúningur, það var ljóst að samningarnir mundu falla. Skoðið bara línuritin. Frá þeim tíma hefur gengið styrkst að svo miklu leyti sem það er marktækt í gjaldeyrishöftum og sérstaklega hefur skuldatryggingarálag Íslands lækkað jafnt og þétt. Það varð viðskilnaður við önnur lönd á þessum tímapunkti, vegna þess að lönd sveiflast oft í takt hvað þetta varðar, þar sem Ísland fór niður en mörg Evrópulönd upp, þ.e. urðu ótraustari lántakar.

Nú er svo komið að Ísland er traustari lántakandi en Grikkland, Írland, Portúgal og fór meira að segja fram úr Spáni í framhaldi af þessari niðurstöðu sem stjórnarliðar höfðu leyft sér að halda fram að mundi valda því að enginn mundi vilja lána Íslandi framar. Það mál hefur ekki verið rætt með rökum fram að þessu. Það er tími til kominn að við byrjum að gera það nú á lokasprettinum. (Forseti hringir.) Þegar ég segi „ekki rætt með rökum“ er ég að sjálfsögðu að vísa til stjórnarliðsins sem talað hefur fyrir þessu.