139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[21:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki annað hægt en að brosa þegar einn af framámönnum Framsóknarflokksins kemur upp og segir: Æ, treystið þið ríkisstjórninni? Hver á þessa ríkisstjórn með húð og hári? (Gripið fram í: Ekki þessa.) Erum við ekki að tala um rúmlega tveggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar sem Framsóknarflokkurinn kom á laggirnar út af því að það var komin heift í Framsóknarflokkinn gagnvart Sjálfstæðisflokknum? (Gripið fram í.) Það þurfti að einangra Sjálfstæðisflokkinn, hann var um tíma í þessu kompaníi að ekki mátti ræða við Sjálfstæðisflokkinn af því að það var svo ómálefnalegt. Um að gera að hleypa Samfylkingunni og Vinstri grænum að, fyrst sem minnihlutastjórn. Framsókn kokgleypti náttúrlega allt, átti að fá stjórnlagaþingið og atvinnumálin og skjaldborgina um heimilin — og hvað hafa þeir? Þeir hafa ekkert fengið. Framsóknarflokkurinn hefur ekki fengið neitt. (Gripið fram í.) En við sitjum uppi með ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Það eina sem við getum gert er að koma ríkisstjórninni út úr sjálfheldunni sem hún er í og reyna að nálgast hvert mál málefnalega. Ekki út frá þessum klassísku skotgröfum sem við höfum allt of lengi verið í, heldur að reyna að taka hvert mál fyrir í einu. Þannig reynum við að gera varðandi Icesave. Þannig gerðum við við gagnaverið og það er rétt sem ég var minnt á áðan, Framsóknarflokkurinn lyfti ekki litla fingri til þess að koma gagnaverunum í gegn heldur þurfti Sjálfstæðisflokkurinn með hluta af Samfylkingunni að ýta því í gegn og nokkrir Vinstri grænir fengu að vera með meðan fjármálaráðherrann sat hjá. Þannig er hægt að gera hlutina. Ég og hv. þingmaður sem heitir því fallega nafni Gunnar Bragi Sveinsson (Gripið fram í: Kommon!) [Hlátur í þingsal.] deilum sömu skoðun; að vilja koma ríkisstjórninni frá hið snarasta. Við skulum ekki gleyma uppruna ríkisstjórnarinnar, hún er upprunnin frá Framsókn og hún á ríkisstjórnina með húð og hári.