139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

aðildarviðræður við ESB.

[10:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaðan hv. þingmaður hefur það að ríkisstjórnin verði sprengd í loft upp og ég hafi í hótunum varðandi ESB. Þetta er bara rangt. Hv. þingmaður talar um að það sé eitthvað skrykkjótt þetta ferðalag með ESB en það er rangt, það gengur allt samkvæmt áætlun. Fullt samráð hefur verið haft við utanríkismálanefnd og ráðherranefnd um ESB-mál, sem í eiga sæti ráðherrar Samfylkingar og Vinstri grænna, hittist reglulega og menn bera saman bækur sínar. Allt gengur samkvæmt áætlun, rýnivinna er í fullum gangi og mun ljúka fljótlega og auðvitað er ég sammála því að þessu ferli ljúki.

Hvað samþykkti Alþingi á umræddu þingi? Að leggja skyldi fram aðildarumsókn og sjá hvaða samninga við fengjum út úr þeim samningaviðræðum. Og það er á fullri ferð. Við eigum að treysta þjóðinni til að meta hvort hún vill þessa samninga eða ekki. Við hljótum að stefna að því að fá þá bestu samninga sem völ er á, að allir greiði götuna fyrir því að við fáum sem besta samninga sem hægt er að leggja fyrir þjóðina, en hún hefur síðasta orðið í þessu máli. En það eru fullkomnar getgátur og rangt að ferðalagið sé eitthvað skrykkjótt. Það er allt á réttri leið í samræmi við þá ályktun sem Alþingi hefur samþykkt og eftir henni er fullkomlega farið, þeirri leiðsögn sem þar var sett fram.