139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

styrkir frá ESB.

[10:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður veit að utanríkisráðherra leggur jafnan lykkju á leið sína ef það mætti verða til að létta einhverjum lífið. Það gildir jafn vel um hv. þm. Birgi Ármannsson sem ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og jafnvel ráðherra míns eigin flokks.

Í þessu tilviki er það eins og ég sagði áðan og hv. þingmaður vísar væntanlega til fregna um TAIEX-styrkina svokölluðu. Þeir eru til að afla sérfræðiþekkingar á einstökum afmörkuðum sviðum. Þess vegna er fyrirkomulagið þannig að það eru samningahóparnir sem skilgreina verkefni en það er utanríkisráðuneytið sem síðan aflar styrks í formi mannafls eða annars frá framkvæmdastjórninni. Þannig er það.

Eins og hv. þingmaður veit örugglega, því að hann fylgist mjög vel með framvindu Evrópusambandsmálsins að því er varðar IPA-styrkina sjálfa, þá er það sérstök skrifstofa í forsætisráðuneytinu sem vélar með þá. En þegar að því kemur þurfa verkefnin að fara í gegnum ráðherranefnd um Evrópumál.