139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

lög um gerð aðalskipulags.

[15:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er á miklum villigötum. Hæstv. umhverfisráðherra vildi fyrst vísa málinu frá því að hún vildi ekki fara í málefnalega umræðu um það í undirrétti eða Hæstarétti. Það er búið að breyta skipulagslögum í þá átt að um þetta er enginn vafi og búið er að heimila að sveitarfélögunum sé heimilt að láta framkvæmdaraðila greiða skipulagskostnaðinn.

Það er margt annað sérkennilegt í þessu máli. Ég verð að ítreka spurningu mína um hvort hæstv. fjármálaráðherra ætli sér að umhverfisráðherra fái að sitja áfram í ríkisstjórninni á ábyrgð hans, hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar. Ekki hefur komið hér ein einasta afsökunarbeiðni.

Þegar stjórnlagaþingið var til umræðu sögðu forsætisráðherra og innanríkisráðherra að þeir þyrftu ekki að segja af sér enda hefðu þeir engin lög brotið. Hér hefur verið framið lögbrot og ekki kemur einu sinni afsökunarbeiðni, (Forseti hringir.) hvað þá, sem eðlilegast væri, að umhverfisráðherra segði af sér. Ég heyri að (Forseti hringir.) fjármálaráðherra hefur engin áform uppi um það.