139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps.

[15:12]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum þetta merka mál, ráðherraábyrgð. Ég vil hefja mál mitt á því að benda á að málshefjandi, hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir og hv. þm. Ólöf Nordal greiddu atkvæði fjórum sinnum í röð gegn því að ábyrgð ráðherra yrði metin fyrir þar til bærum dómstól, landsdómi, þann 28. september sl. Fjórum sinnum í röð greiddu þær atkvæði gegn því að málið fengi eðlilegan framgang. Sama fólkið krefst nú afsagnar ráðherra Vinstri grænna vegna vegarspotta, vatnsveitu og annarra umdeildra mála. Ég er hlynntur því að ráðherrar beri ábyrgð en ég lít svo á að þessi umræða í dag sé smjörklípa.

Það er brýnt að endurskoða allt ferlið hvað varðar skipulagsmál sveitarfélaga og brýnt er að koma í veg fyrir að sá skollaleikur sem átti sér stað austur í Flóa geti endurtekið sig. Það er enn brýnna að koma í veg fyrir að einstök sveitarfélög og jafnvel fjórir sveitarstjórnarmenn geti með ákvörðunum sínum eyðilagt ómetanlegan hluta af náttúru Íslands. Það höfum við séð gerast hvað eftir annað. Það þarf að taka þetta skipulagsvald af sveitarfélögunum og breyta þarf þeirri hugsun að einstaklingar geti átt náttúruna persónulega og gert við hana nánast það sem þeir vilja.

Eignarrétturinn og ekki síst einkaeignarrétturinn er mikilvægur og ein mikilvægustu mannréttindi sem til eru. Einkaeign á náttúrunni og einkaeign á auðlindum er hins vegar ekki og getur aldrei verið hluti af þeim mannréttindum. Náttúran er sameign okkar allra og við eigum öll í sameiningu að taka ákvarðanir um hvað um hana verður ef taka þarf ákvarðanir um það. Náttúran sem slík hefur (Forseti hringir.) gildi í sjálfu sér, miklu mikilvægara gildi en það peningalega gildi sem Íslendingar eru svo önnum kafnir við að reyna að setja á okkur.