139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

fundarstjórn.

[15:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera þá athugasemd við fundarstjórn forseta að hún skyldi yfirleitt hleypa hæstv. fjármálaráðherra upp í ræðustól út af ummælum sem féllu í gær og hæstv. fjármálaráðherra [Hlátur og frammíköll í þingsal.] virtist telja að hann þyrfti bera af sér sakir, að ég held — ég veit ekki betur.

Það er svolítið merkilegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli kveikja á þessari umræðu og ég þakka honum fyrir það. Ég vil nota tækifærið um leið og ég kvarta undan þessari fundarstjórn og segja að fullt efni sé til að kveða býsna fast að orði gagnvart hæstv. fjármálaráðherra þegar hann segir að menn eða fyrirtæki kaupi sér niðurstöðu. Það voru nákvæmlega þau orð sem hæstv. fjármálaráðherra notaði í þessum ræðustól. Við getum svo lagst í alls konar pælingar um það. Hér eru íslenskufræðingar sem reyna stundum að siða okkur til í ræðustól, þarna er einn hv. þingmaður: Hvað þýðir að kaupa sér niðurstöðu? [Hlátrasköll í þingsal.] Hvað þýðir það þegar hæstv. ráðherra segir að einhver kaupi sér niðurstöðu? Þá er væntanlega einhver að borga og einhver að þiggja. Hvaða annað orð getum við notað yfir það?

Ég spyr því: Getur verið að hæstv. fjármálaráðherra hafi meint „mútur“? (Forseti hringir.) Hann sagði það ekki, en getur það verið?