139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það kemur kannski ekki á óvart að ég er mjög ósammála inntakinu í ræðu þingmannsins, þ.e. þeirri niðurstöðu sem hann kemst að.

Það er hins vegar mjög athyglisvert að velta fyrir sér, og ég hvet fólk til að gera það, þeim snúningi sem varð á stefnu Sjálfstæðisflokksins í málinu, einhverju mesta hagsmunamáli Íslendinga og íslenskrar þjóðar fyrr og síðar. Svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn eða stærsti hluti hans ætli að samþykkja að velta ábyrgðinni sem þarna um ræðir yfir á framtíðina og þjóðina. Prinsipp sem maður taldi sig greina í ræðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins fyrr í umræðum virðast engin lengur vera. Nú á að leysa málið með einhverjum hætti þar sem þau prinsipp sem flokkurinn virðist einu sinni hafa haft standa ekki lengur .

Mig langar að spyrja hv. þingmann um hina gríðarlegu áhættu sem felst í samningnum. Því verður ekki mótmælt að áhættan í samningnum er mjög mikil. Auðvitað hefur hér verið dregin upp skásta myndin og svo versta myndin. Versta myndin er að sjálfsögðu sú sem hér hefur verið rædd, 230–240 milljarðar sem gætu hugsanlega lent á þjóðinni. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða áhrif Icesave-samkomulagið hefur á gjaldeyrishöftin. Ef ég skildi nefndarálit sjálfstæðismanna við 2. umr. rétt er lykilforsenda þess að málið þróist í réttan farveg að hér sé ríkisstjórn sem haldi vel á spöðunum efnahagslega. Er það mat hv. þingmanns að sú ríkisstjórn sem nú situr muni ná að halda þannig (Forseti hringir.) á efnahagsmálum að Icesave hafi ekki áhrif á gjaldeyrishöftin?