139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:22]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Þingmaðurinn vitnaði hér í kannanir og sagði að yngra fólk væri meira mótfallið en eldra fólk. Ég held að það sé að mörgu leyti rétt. En ég hef þó tekið eftir gríðarlegri andstöðu meðal elsta aldurshópsins sem er að fylgjast með. Það er það fólk, þeir Íslendingar, sem hefur alltaf þurft að berjast mjög hart fyrir öllu sínu, Íslendingar sem fæddust jafnvel danskir ríkisborgarar og muna vel eftir sjálfstæðisbaráttunni. Ég held að margt af því fólki skynji þetta á eigin skinni. Það þekkir heim þar sem var raunveruleg fátækt og það skilur hættuna sem svona skuldabyrðar þýða fyrir þjóðina og hvað það þýðir að tapa efnahagslegu sjálfstæði sínu.

Mig langar aðeins að fara aftur inn á verklagið. Tvisvar í dag hafa verið greidd afbrigði um breytingartillögur, þær teknar inn með afbrigðum vegna þess að menn hafa ekki haft tíma til að skrifa nefndarálit, þeim hefur ekki gefist tími til að vinna vinnuna sína. Þegar málið var tekið úr nefndinni í gær var starfsfólk nefndasviðs farið heim og ég veit að fulltrúi okkar í fjárlaganefnd vakti til klukkan 5 í nótt við þessa vinnu. Þetta er ekki verklag sem á að líðast á Alþingi Íslendinga. Við eigum að vanda okkur. Þetta ber ekki vitni um vönduð vinnubrögð.