139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[23:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um það að hv. þingmaður sagði að engar líkur væru á að við mundum tapa dómsmáli. Ég er ekki sammála því. Ég held að töluverðar pólitískar líkur séu á að við töpum dómsmáli, þá bara í samræmi við þennan hnefarétt sem ég er því miður búinn að kynnast. Ég vildi gjarnan vera laus við þá reynslu. Ég hugsa að ef þetta færi t.d. til ESA-dómstólsins yrði það ekki óvilhallur dómur. Það eru ákveðnar líkur á því.

Annað er spurningin um líkur á því að við getum ekki greitt. Ég nefndi fyrr í dag í andsvari að það væri kannski rétt að setja 90 milljarða hámark á þessa ábyrgð. Ég tel nauðsynlegt að hafa eitthvert hámark á ríkisábyrgð. Þessi ríkisábyrgð gildir ekki með þessum lögum. Ég held því fram vegna þess að samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar má ekki skuldbinda ríkissjóð nema með fjárlögum. Það hefur ekki verið gert. Þessi ríkisábyrgð heldur hugsanlega ekki ef í nauðirnar rekur. Við höfum sem betur fer þetta ákvæði í stjórnarskránni.

Ég hugsa að það séu u.þ.b. 90 milljarðar sem íslenska þjóðin gæti með herkjum staðið undir og þá reikna ég með því að hér verði skipt um ríkisstjórn og að við taki ríkisstjórn sem geri eitthvað af viti í efnahagsmálum, keyri ekki allt saman í þrot og stöðnun. Ef þessi ríkisstjórn heldur áfram, svo maður tali ekki um fjögur eða fimm ár í viðbót, erum við með þvílíka stöðnun og hörmungar og fátækt að við munum ekki geta borgað einu sinni það sem gert er ráð fyrir hérna, 40 milljarða. En ef menn rækju efnahagslífið með sæmilegu viti gætum við borgað 90–100 milljarða á einhverju árabili. Ég tel að það séu mörkin. Þar fyrir ofan er eitthvað stórhættulegt, t.d. 150 milljarðar, og ég veit ekkert um líkurnar á því. Hv. fjárlaganefnd fór nefnilega ekkert í gegnum það, hún vanrækti það.