139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[02:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. (Gripið fram í: Hverju ætlar hann að svara?) Vitanlega er þetta andsvar, (Gripið fram í.) ekki síst við því ofríki sem stjórnarmeirihlutinn hefur sýnt gagnvart … (ÁÞS: … ræðumanns …) Það er alveg ljóst.

(Forseti (ÞBack): Gefið þingmanni hljóð.)

Þakka þér fyrir, frú forseti. Það er alveg ljóst að þetta er andsvar við því (ÁÞS: Þetta er ekki andsvar …) sem hefur verið haldið hér á lofti og stjórnarmeirihlutinn vill keyra í gegn. Þjóðin er svo sannarlega að taka sig á núna og ætlar að sýna mátt sinn og megin með því að kvitta upp á að hún vilji fá málið til sín. Ég veit að það svíður undan því. Ríkisstjórninni er það auðvitað ekki ljúft og stjórnarmeirihlutanum, eins og kemur fram í frammíköllum hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans, að þjóðin ætli að taka þetta mál til sín sem mér sýnist hún ætla að gera. Auðvitað svíður það þegar menn vilja keyra málið í gegn án þess að spyrja kóng eða prest. Sum okkar hafa gert sitt besta til að ná fram niðurstöðu í þetta mál sem er sæmandi og ásættanleg fyrir þjóðina. Þessi samningur er það bara ekki. Þó að menn hafi tekið þátt í að semja um betri niðurstöðu náðist ekki sú niðurstaða sem mörg okkar geta sætt sig við, það er einfaldlega þannig. Þó að það fari fyrir brjóstið á stjórnarmeirihlutanum, einstökum þingmönnum, að við séum ekki sátt við þá niðurstöðu sem þeir hafa fram að bjóða (Gripið fram í: … þingsköpum.) erum við bara annarrar skoðunar. Einhver hér (Gripið fram í.) kann að aðhyllast stjórnarfar sem er víða í austantjaldslöndum eða annars staðar en það á ekki við á Íslandi, háttvirtur frammíkallari. Þannig er það.

Ég verð að segja, frú forseti, að íslenska þjóðin er sem betur fer (Gripið fram í.) sterk og ætlar ekki að láta (Forseti hringir.) troða ólöglegum samningi ofan í kokið á sér nú frekar en áður. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)