139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Lee Buchheit, sem leiddi þá samninga sem nú eru greidd atkvæði um, telur ólíklegt að hægt sé að fá betri samninga og valið standi á milli þessa samnings og dómsmáls sem gæti tapast með skelfilegum afleiðingum. Að því hafa verið leiddar líkur með sannfærandi rökum að fari málið fyrir dómstóla gæti reikningurinn á íslenska ríkið orðið 1.100–1.200 milljarðar kr. auk vaxta en á móti kæmu endurheimtur úr búi Landsbankans. Ljóst er líka að nokkur ár tæki að leysa málið fyrir dómstólum.

Þeir sem hafna þessum samningi tefla því þjóðarhag í mikla tvísýnu. Það er orðið löngu tímabært að leiða til lykta þetta hörmulega mál sem klofið hefur þjóðina í fylkingar, spillt samskiptum okkar við umheiminn og valdið miklum töfum í efnahagslegri endurreisn landsins.