139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave 2 hafnaði þjóðin með afgerandi hætti þeim samningi enda var hann óhæfa. Þeir sem samþykktu þann samning höfðu lítið gert í þingsal eða í umræðu í þjóðfélaginu til að reyna að sannfæra fólk í landinu um að hann væri réttur. Það sama hefur verið uppi á teningnum við þessa umræðu um Icesave 3. Þeir sem eru tilbúnir að samþykkja þann samning hafa ekki haft sig mikið í frammi til að sannfæra fólk í landinu um að hann sé réttur.

Ef menn samþykkja hins vegar núna að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu fá menn þann möguleika að fara í umræðu og sannfæra þjóðina um að það sé sanngjarnt að hún taki á sig þessar byrðar. Það er ekki bara eðlilegt heldur fullkomlega nauðsynlegt að þjóðin sem á að taka á sig þessar óskilgreindu og löglausu kröfur einkaaðila fái að tjá sig um það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég segi já.