139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þeir sem segja já segja m.a. já við langvarandi gengishöftum, þeir segja líka já við áframhaldandi niðurskurði velferðarkerfisins. Vonandi hafa þeir sem eru hvað bjartsýnastir á að þetta gangi vel rétt fyrir sér. En hin efnahagslega áhætta er öll okkar megin.

Hver skrifar upp á óútfylltan víxil? Enginn skynsamur maður. Hver heldur því fram með trúverðugum hætti að lengra komist menn ekki? Eru það þeir sem hafa sagt okkur að segja já við Icesave 1, Icesave 2 og nú Icesave 3? Er það trúverðugt?

Tíminn hefur unnið með okkur, hann mun vinna með okkur ef við höfum kjark í okkur til að standa í fæturna, standa frammi fyrir verkefninu og þora að leysa það en ekki lyppast niður. Ég segi nei.