139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

fundarstjórn.

[16:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera athugasemd við lokaorð hv. þm. Marðar Árnasonar sem hann beindi til mín, ég get algjörlega setið undir þeim rangtúlkunum sem hann viðhafði þar og átt við hann orðastað um það á seinni stigum. Ég kem hér upp til að óska eftir afsökunarbeiðni frá hv. þingmanni og inna hæstv. forseta eftir því af hverju ekki hafi verið slegið í bjölluna að lokinni ræðu hv. þingmanns og hann beðinn um að gæta orða sinna vegna þeirra ummæla sem hann viðhafði um hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Þar fór þingmaðurinn með dylgjur og ósannindi og var einstaklega ósmekklegur. Þar sem hv. þm. Mörður Árnason er farinn að venja komur sínar í ræðustólinn til að biðjast afsökunar, gerði það í gær eftir að hann missti stjórn á skapi sínu í hv. umhverfisnefnd, skora ég á hann að koma hér, vera maður að meiri og biðja hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur afsökunar á ummælum sínum.