139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:16]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langaði að ræða eitt við hana sem hefur verið töluvert í umræðunni, það hvort aðlögunarferli eða viðræður séu í gangi. Hv. þingmaður er ekki sammála mér þegar kemur að því hvort þetta sé aðlögun eða ekki. Ég veit að hv. þingmaður á sæti í utanríkismálanefnd og væntanlega þessari sameiginlegu nefnd þingmanna Íslands og Evrópuþingsins og ég spyr hvort hv. þingmanni sé kunnugt um að við séum í einhverju öðru ferli en önnur ríki eru í. Ferlið sem boðið er upp á af hálfu Evrópusambandsins felur í sér ákveðna aðlögun. Þarna eru opnunarskilyrði og lokunarskilyrði fyrir samningaköflum. Króatía er m.a. í þessu ferli og þarf að uppfylla ákveðin skilyrði áður en samningaköflum er lokað, t.d. um að innleiða stjórnsýslu á mörgum sviðum sem landið þyrfti ekki á að halda nema það væri að ganga í Evrópusambandið. Embættismenn sem koma frá Evrópusambandinu, talsmenn stækkunardeildarinnar, Angela Filote og fleiri, hafa sagt að bara þetta ferli sé í boði. Er hv. þingmanni kunnugt um að við séum í einhverju öðru ferli en Evrópusambandið almennt býður upp á? Hvar hefur slíkt verið samþykkt og ákveðið, að við skyldum vera í einhverju öðru ferli?