139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur hér varið þessar arðgreiðslur til Menntaskólans Hraðbrautar (PHB: Það er ekki rétt, ég neita þessu.) og eigenda hans. Hann hefur varið það að hér hafi verið arðgreiðslur til einkaskóla, að þær hafi greinilega verið eðlilegar, því að hann gerði enga tilraun til að draga fram að þarna hefðu menn farið offari. Hvernig voru þessar arðgreiðslur tilkomnar, hv. þm. Pétur H. Blöndal? Þær eru allar tilkomnar af því að teknir voru fjármunir úr ríkissjóði, úr sameiginlegum sjóðum skattborgaranna, og borgað meira en samningarnir sem menntamálaráðuneytið hafði undirritað við eigendur skólans kváðu á um. Þessir peningar voru síðan notaðir og runnu að 95% leyti í vasa eigenda skólans. Þetta er að mínu mati ekki til neinnar fyrirmyndar og ég get með engu móti varið það.

Svo veit ég ekki betur en að allt önnur aðferðafræði hafi gilt í öðrum einkaskólum í landinu og þar hafi menn ekki praktíserað skólastarf sitt með þessum hætti. Þarna verðum við að gera greinarmun á því þegar menn fara offari og því þegar menn fara eftir bókinni. Hér hefur verið dregið fram í umræðunni að við erum með skóla eins og Verslunarskólann sem hefur notað allt aðra aðferðafræði og ég veit ekki til þess að neinn skuggi hafi fallið á fjármálaumsýslu hans.

Mér þætti vænt um að menn skoðuðu þetta tiltekna tilvik sem við höfum horft upp á þar sem miklir fjármunir voru teknir út úr skólastarfinu og því uppbyggingarstarfi sem hefði átt að leiða af fjármunum ríkisins og runnu beint í vasa eigendanna, jafnvel þótt ljóst hafi verið að reksturinn var í mínus.