139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

synjun forseta Íslands á Icesave-lögunum.

[14:16]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér fer fram um þjóðaratkvæðagreiðslur og þeirri afstöðu sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðherrum, fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, um að minni hluti þings og minni hluti þjóðar eigi jafnvel að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum. Það held ég að væri mjög vænlegt skref í rétta átt.

Pexið snýst að einhverju leyti um það núna hvort heimildin eigi að vera áfram hjá forseta Íslands eða hjá þjóðinni. Ég tel að heimildin eigi að liggja a.m.k. hjá þjóðinni, það sé spurningarmerki hvort forseti sjálfur eigi að hafa áfram þessa heimild en a.m.k. verði komið hér á almennilegu kerfi þar sem minni hluti þjóðarinnar, ákveðið hlutfall atkvæðisbærra manna, getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslna um tiltekin mál.

Hvaða hlutfall það verður er kannski hægt að tala um, hvaða mál það verða er líka hægt að tala um. Ég vísa hér sjálfur í frumvarp Hreyfingarinnar, 105. mál, sem hefur verið lagt fram í þriðja sinn sem er mjög góður grunnur að byggja þá umræðu á. Þar tölum við um 10% atkvæðisbærra manna, einn þriðja hluta þingmanna, við tölum um mál sem hugsanlega gætu verið undanskilið, svo sem fjárlög, refsirammi hegningarlaga eða almenn mannréttindi. Aðalatriðið er að þingið bretti nú upp ermarnar og komi þessari umræðu og þessari vinnu af stað með sómasamlegum hætti.

Ég er ekki sammála hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að samninganefndin sé sú besta sem eigi að kynna þetta mál. Hún mun kynna þann samning sem hún gerði, stór hluti þingmanna er á móti þeim samningi, ekki á móti samningaleiðinni heldur á móti þeim samningi. Samninganefndin er því ekki besti hlutlausi aðilinn til að kynna það mál. (Gripið fram í: Þú átt formanninn …) Ég vísa svo líka til þess að málið er hjá þjóðinni, ekki hjá ríkisstjórninni eða stjórnmálaflokkunum, og framkvæmdin á kosningunni er á ábyrgð innanríkisráðherra (Forseti hringir.) og ber að vanda mjög til verka þar. Ég fagna því eftir nýjustu framkomnu upplýsingar um að sennilega verði allt að því tveggja mánaða (Forseti hringir.) frestur þangað til atkvæðagreiðslan verður. Það veitir ekki af.