139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ástandið í Líbíu.

[15:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tel ekkert vafamál ef fregnir eru réttar að það sem hefur gerst í Líbíu megi auðveldlega flokka undir stríðsglæpi. Fregnir greina frá því að þar hafi flugvélum og mjög þungum vopnum verið beitt gegn vopnlausu fólki. Í krafti margra alþjóðlegra laga held ég að það falli undir skilgreiningu á stríðsglæp. Íslenska ríkisstjórnin fordæmdi mjög harkalega framferði stjórnvalda í Líbíu.

Það gleður mig að sjá að í öðrum nærlægum löndum og um alla Norður-Afríku virðist sem bylgja frelsis fari og það hefur sannarlega verið jákvætt að sjá hvernig fólk hefur tekið höndum saman en sömuleiðis að sjá stillingu stjórnvalda í öllum öðrum löndum. Ég vonaði sjálfur að það boðaði breytta tíma.

Íslenska ríkisstjórnin er reiðubúin til þess hvar sem er og með hvaða hætti sem er að leggja sitt lóð á vogarskálar þess að vilji fólksins nái fram að ganga, t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með því að styðja þau öfl sem þar eru að verki við að koma því svo fyrir að menn eins og Gaddafi verði ekki lengur við stjórnvöl. Það hefur komið fram að forusta Sameinuðu þjóðanna hafi beitt sér til að fá hann — áður en þessir hörmulegu atburðir gerðust — til að hverfa frá stjórnvelinum. Um tíma voru fregnir af því, lausafregnir að vísu, að hann hefði horfið úr landi en í ljós kom að svo var ekki.

Ég er sammála hv. þingmanni að þetta ber að fordæma og íslenska ríkisstjórnin fordæmir það harkalega og er reiðubúin að gera það með hvaða hætti sem er.