139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í meting við hv. þingmann um hvort einhver einn flokkur stendur frekar að fjárveitingum en annar. Ég held að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að Samkeppniseftirlitið þurfi að vera vel mannað. Þar eru núna um 20 manns, rétt rúmlega.

Samkeppniseftirlitið hefur unnið gífurlegt starf. Ég treysti þeim fullkomlega til að fara með þá heimild sem veitt er í frumvarpinu. Þar kemur alveg skýrt fram að Samkeppniseftirlitið verði að undirbúa málatilbúnað ítarlega vilji það nýta þá heimild sem því er gefin. Hún er víðtæk, það er alveg rétt, en hún er nauðsynleg.