139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Lykilástæðan fyrir því að ég hef talað fyrir því að afgreiða þetta mál og styðja það er sú að í ljósi aðstæðna á Íslandi, fámennis og tilhneigingar til að mynda fákeppnismarkað, tel ég okkur þurfa öflug samkeppnislög. Á þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á stöðu hinna fjölmörgu markaða hér á landi sjáum við að um mjög mikla fákeppni er að ræða almennt. Þess vegna hefði maður gjarnan viljað að sú löggjöf sem er til staðar hefði dugað til að taka á þessari fákeppni. Eftir að hafa farið vandlega yfir málin hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég tel nauðsynlegt að veita Samkeppniseftirlitinu víðtækari valdheimildir.

Þó að verið sé að gefa auknar valdheimildir þá er ekki þar með sagt að Samkeppniseftirlitið verði frjálst frá þeim lögum sem gilda um framkvæmd stjórnsýslu á Íslandi heldur gilda áfram, eins og kemur fram í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans, reglur um rannsóknarskyldu, ákvæði um upplýsinga- og andmælarétt og að gæta þurfi meðalhófs. Í nefndarálitinu er lögð sérstök áhersla á að Samkeppniseftirlitið verði að sinna mjög vel rannsóknarskyldu sinni áður en þessari valdheimild sé beitt. Það þarf sem sagt að færa fram sannanir fyrir því að skipulag eða uppbygging fyrirtækis komi í veg fyrir, takmarki eða hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Í öðru lagi verður eftirlitið að sanna að uppskipting fyrirtækis sé í réttu hlutfalli við þær samkeppnishömlur sem stafa af stöðu þess á markaði og að vægari aðgerðir en uppskipting geti ekki náð sama árangri til að tryggja meðalhóf.

Varðandi meðhöndlun nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. hefur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson í máli sínu farið ágætlega í gegnum þau sjónarmið sem komu fram frá gestum nefndarinnar, Herði Felix Harðarsyni og Heimi Erni Herbertssyni sem kenna samkeppnisrétt við lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, og þeim rökum er svarað í nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar. Jafnframt komu Arnór Snæbjörnsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Elías Blöndal frá Bændasamtökunum á fund nefndarinnar. Ástæðan fyrir því að ég óskaði sérstaklega eftir að þessir gestir kæmu fyrir nefndina á milli 2. og 3. umr. var til að ræða þær áhyggjur sem komu fram við 2. umr. um hvernig Samkeppniseftirlitið hefði beitt sér gagnvart landbúnaðinum og því löglega samstarfi sem er leyft samkvæmt búvörulögum þar sem afurðastöðvum er heimilt að sameinast eða eiga með sér samstarfi um verkaskiptingu án þess að það heyri undir samkeppnislög. Það hefur verið svolítið einkennilegt að fylgjast með því að þrátt fyrir miklar annir hjá Samkeppniseftirlitinu hafi það samt getað gefið sér tíma til að tjá sig um hluti sem varða það ekki og heyra ekki undir samkeppnislög. Við meðferð nefndarinnar kom fram að þetta hefði verið rætt sérstaklega við Samkeppniseftirlitið og þess vegna var ákveðið í framhaldinu að heyra betur frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Bændasamtökunum um hvort ákvæðið gæti að einhverju leyti haft áhrif á þessar tilgreindu sérheimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Kom skýrt fram frá bæði Bændasamtökunum og landbúnaðarráðuneytinu að frumvarpið og samþykkt þess mundi ekki hafa nein áhrif á þessar heimildir afurðastöðva í mjólkuriðnaði.

Síðan er önnur umræða hver vilji manna er í raun, t.d. með aðild að Evrópusambandinu, og hvort menn hafi þá í hyggju að leggja niður þau búvörulög sem landbúnaðurinn starfar núna eftir. Það er önnur og viðameiri umræða sem verður kannski komið inn á í öðrum dagskrármálum í dag.

Þetta er sem sagt ástæðan fyrir því að ég get samþykkt þetta frumvarp nokkuð sátt í þeirri von og með þeirri áherslu að Samkeppniseftirlitið geri sér grein fyrir því að verið sé að leggja mikla ábyrgð á herðar stofnunarinnar og að Alþingi muni þá sinna mjög vel eftirlitsskyldu sinni gagnvart framkvæmdarvaldinu til að tryggja að farið verði vel með þessa valdheimild og að Samkeppniseftirlitið hlíti þeim reglum sem því er gert að starfa eftir. En ekkert hefur komið fram við vinnslu nefndarinnar varðandi þetta mál sem gefur til kynna annað en að svo verði.