139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vísaði til málsmeðferðarreglna Samkeppniseftirlits, sem er gott og blessað. Lagaákvæðið sem við erum að fjalla um hér er hins vegar óhjákvæmilega mjög opið og matskennt, um það verður ekki deilt. Það er vísað til mjög matskenndra þátta eins og aðstæðna á markaði, almannahagsmuna og hagsmuna neytenda sem auðvitað eru ekki afdráttarlaus stærð. Það er ekki til nein reikniformúla sem getur leitt okkur til ótvíræðrar niðurstöðu um þessa þætti, þeir eru matskenndir.

Þess vegna segi ég að þegar stjórnvöldum er að lögum falið eftirlit og íhlutunarvald sem getur verið íþyngjandi fyrir þá sem eftirlitið beinist að er lágmarkskrafa að lagareglan sé býsna skýr og það er sú löggjafarhefð sem er fyrir hendi varðandi önnur svið opinbers eftirlits. Ég nefndi áðan skattaréttinn. Í skattarétti er enginn í vafa um að það eru settar mjög stífar hömlur á það hvernig skattyfirvöld eiga að fara með vald sitt. Lögin eru mjög skýr um það efni. Hið sama á við um fjöldamörg önnur svið samfélagsins sem eru líka mjög mikilvæg.

Nú má ekki túlka orð mín svo að í þeim felist eitthvert vantraust gagnvart þeim einstaklingum sem starfa í samkeppnismálum á Íslandi, ekki frekar en það er vantraust gagnvart þeim einstaklingum sem vinna að skattamálum, að löggjafinn telji þörf á að hafa skýrar reglur en ekki opnar og matskenndar um það hvernig fara eigi með valdið í skattamálum. Þegar við felum opinberum aðilum mikið vald (Forseti hringir.) er eðlilegt að því valdi séu settar skýrar skorður í lögum.