139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef í umræðunni nokkrum sinnum vakið athygli á því að hér væri um að ræða afar matskennda heimild til handa samkeppnisyfirvöldum. Hv. þm. Skúli Helgason og raunar fleiri hafa vísað til þess að verklagsreglur samkeppnisyfirvalda og aðrar meginreglur hjálpi til við að túlka þau almennu sjónarmið sem þarna koma fram.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þm. Skúla Helgason hvort það hafi verið skoðað alvarlega í viðskiptanefnd, ég á ekki sæti í þeirri nefnd, að setja skýrari ákvæði í þessu efni en frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég vísa til þess eins og ég hef gert áður að í fjölmörgum öðrum lagabálkum þar sem opinberum aðilum er falið mikið vald til að gæta almannahagsmuna eru engu að síður settar skýrar reglur um hvernig þau eigi að fara með vald sitt og hvenær vald, íþyngjandi ákvarðanir og aðrar slíkar ákvarðanir af þeirra hálfu eigi við. Þetta er gert vegna þess að stjórnsýslan í landinu á að vera lögbundin og mikilvægustu reglur um hvernig fara ber með opinbert vald eiga að vera lögfestar en ekki eingöngu í einhverjum verklagsreglum einstakra stjórnvalda.