139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Guð láti gott á vita í þessum efnum og verði frumvarpið að lögum vona ég að þær áhyggjur sem ég hef hér orðað reynist ekki á rökum reistar. Við berum almennt það traust til þeirra sem fara með opinbert vald að þeir fari vel með það. En engu að síður er það þannig í löggjöf bæði hér á landi og erlendis. Ef við horfum á löggjöfina hér á landi þar sem opinberum aðilum er falið mikið vald þá eru jafnan settar skýrar reglur um það í lögunum sjálfum hvernig eigi að fara með það vald. Stór hluti af skattalögunum er einmitt þess eðlis. Í stórum hluta af lögum um fjármálamarkaði, bæði eldri löggjöf á því sviði og nýrri, að verið er að gefa Fjármálaeftirliti og öðrum eftirlitsaðilum ákveðnar heimildir en það eru jafnframt skýr fyrirmæli um það hvernig þau eiga að fara með það vald, hvernig þau eiga að beita því o.s.frv. (PHB: Umhverfislög.) Og umhverfislög, segir hv. þm. Pétur Blöndal réttilega.

Það er almennt viðhorf í lagasetningu að þegar opinberum aðilum er fengið mikið vald er talið rétt, eða hefur verið fram til þessa, að setja líka skýrar reglur um hvenær þessu valdi má og á að beita og að hvaða skilyrðum uppfylltum. Þetta viðhorf virðist hins vegar mjög lítið komast að hjá meiri hluta viðskiptanefndar í meðferð þessa máls og alltaf vitnað til þeirra göfugu markmiða sem eru með frumvarpinu, sem ég get tekið undir, að ég vil auðvitað eins og frumvarpsflytjendur og stuðningsmenn þess efla samkeppni í landinu, en ég held að rétt sé að gera það með þeim hætti sem virkar og stenst og sem er ekki, eins og þetta frumvarp, líklegt til að leiða fjölda ágreiningsmála fram á komandi árum vegna þess að ákvæðið er svo matskennt.