139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hæstv. ferðamálaráðherra í þessu efni. Hins vegar eru tölurnar í ferðaþjónustu á Íslandi allskakkar. Við leggjum að mínu viti áherslu á Keflavíkurflugvöll og erum þar komin að ákveðnum endimörkum. Ég held að ég fari rétt með tölur, frú forseti, að 97,7% erlendra ferðamanna komi til Íslands í gegnum Leifsstöð miðað við tölur frá árinu 2009, 1,2% komi í gegnum Reykjavíkurflugvöll og 0,4% í gegnum Akureyrarflugvöll. Tækifærin í ferðaþjónustu eru því misnýtt hér á landi. Allar rannsóknir benda til að þeir sem koma í gegnum Keflavíkurflugvöll noti ferðaþjónustuna í mestum mæli í kringum þann flugvöll, eðli máls samkvæmt, en þeir sem lenda annars staðar eins og t.d. á Akureyri noti norðursvæðið miklu meira. Með þessum hætti væri hægt að dreifa ferðamönnum mjög mikið um landið. Okkur hefur á síðustu árum tekist að dreifa komu ferðamanna allrækilega yfir árið þannig að nú er svo komið, og ég held að þau tímamót hafi verið árið 2007, að meiri hluti erlendra ferðamanna kemur nú til Íslands yfir vetrartímann, 46% þeirra koma yfir sumartímann en 54% yfir vetrartímann. Þetta er athyglisverður árangur í íslenskri ferðaþjónustu á undanförnum árum. Finnar hafa náð meiri árangri, 60% erlendra ferðamanna koma til Finnlands yfir vetrartímann og 40% yfir sumarið. Við höfum náð árangri en ekki hvað varðar að dreifa álaginu betur yfir landið. Það hlýtur að vera næsta markmið okkar í ferðamálaáætlun svo að við getum nýtt betur þau sóknarfæri sem eru til staðar í ferðaþjónustunni og þau glatist ekki ella. Í hvaða færum erum við til þess, hæstv. ferðamálaráðherra? (Forseti hringir.)