139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

rannsókn á stöðu heimilanna.

314. mál
[19:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég er dálítið hugsi yfir þessu vegna þess að núna erum við tveimur og hálfu ári eftir hrun enn að fjalla um það hvernig við getum greint skuldavanda heimilanna. Hvers konar stjórnvöld eru það sem geta ekki einu sinni greint skuldavandann? Hvernig eiga þau þá að geta leyst úr honum? Ég er bara mjög hugsi yfir því að stjórnvöld geti ekki einu sinni greint hann, og hvernig eiga þau þá að geta leyst úr honum?

Hv. þingmaður sagði líka í sinni fínu ræðu áðan að það gæti hugsanlega tekið góðan forritara þrjár til fjórar vikur að ná þessum upplýsingum inn í gagnabanka þannig að þær upplýsingar væru þá aðgengilegar þeim sem þyrftu að fá þær. Það er óumdeilt að þegar maður fer til umboðsmanns skuldara þarf hann að leggja allar þessar upplýsingar fram hvort sem er. Tók ég ekki rétt eftir, er ekki mat þingmannsins að það taki þrjár til fjórar vikur að greina skuldavanda heimilanna? Það er algjörlega óbærileg staða að tveimur og hálfu ári eftir hrun séum við ekki búin að greina skuldavanda heimilanna og þar af leiðandi ekkert farin að vinna í honum af neinu viti. Ég rifja upp að á síðasta ári var minnsta fjárfesting í sögu lýðveldisins. Þetta er hluti af því, bæði skuldavandi heimilanna og fyrirtækjanna stendur í vegi fyrir því að við náum efnahagslífinu í gang og getum farið inn á betri brautir.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, það virðist vera eðlislægur vilji hæstv. ríkisstjórnar að flækja öll mál nógu mikið til að enginn skilji neitt í neinu, ekki nokkur einasti maður, síst hæstv. ráðherrar.