139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mig langaði að ræða aðeins um þjóðaratkvæðagreiðslur í víðu samhengi og hvað við getum lært af því ferli sem við erum kannski inni í miðju. Ég held að við þurfum að koma meiri formfestu á þessi mál og ákveða hvernig við ætlum að haga þjóðaratkvæðagreiðslum í framtíðinni. Ég held að mörg okkar séu sammála um að við viljum sjá þetta form notað meira, en við þurfum að komast að ákvörðun um við hvaða kringumstæður við höldum þjóðaratkvæðagreiðslur, hverjir geti krafist þeirra, hvort það sé þjóðin sjálf, hvort það sé bara forsetinn, hvort það sé bara meiri hluti þings eða jafnvel minni hluti þings.

Við þurfum líka að koma skikki á undirskriftasafnanir sem eru vaxandi í þjóðfélaginu. Við erum alltaf að sjá fleiri og fleiri slíkar. Þar eru ýmis atriði sem þarf að koma á hreint, t.d. hvað er undirskrift. Er undirskrift á netinu undirskrift eða þarf hún að vera á pappír? Getum við hugsanlega gert þetta í gegnum heimabanka? Hvað þurfum við margar undirskriftir kosningarbærra manna til að taka þær sem gilda áskorun um þjóðaratkvæðagreiðslu? Getum við jafnvel komið upp rafrænu lýðræði einhvern veginn, beinu lýðræði, sett þjóðaratkvæðagreiðslur inn í heimabankana þannig að fólk geti kosið þar?

Ég brýni allsherjarnefnd í að skoða vel það frumvarp sem Hreyfingin hefur nú lagt fram í þrígang um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem tekið er á öllum þessum málum og hvet nefndarmenn áfram til góðra verka í nefndinni.