139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir margt í hugleiðingum hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur áðan um að þörf væri á því að setja skýrari ramma utan um þjóðaratkvæðagreiðslur en er fyrir hendi í dag. Öllum er ljóst að þau lög sem sett voru á síðasta ári um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna svara ýmsum spurningum í því sambandi en alls ekki öllum. Ólíkt því sem hv. þingmaður nefndi og ég hygg að búi að baki frumvarpi þingflokks Hreyfingarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur tel ég að meginspurningunum í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslur verði að svara í stjórnarskrá. Þar held ég að mestu skipti að viðunandi lausn fáist og ég held að í stjórnarskrárbreytingum sem lúta að þjóðaratkvæðagreiðslum verði að taka af skarið um þá þætti sem mestu máli skipta, m.a. um það hvenær eigi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna, um hvaða mál og hver á að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru atriði sem ég tel að þurfi að vera í stjórnarskrá.

Í þeirri vinnu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum á vettvangi hinna ýmsu stjórnarskrárnefnda hafa þjóðaratkvæðagreiðslur verið meðal þeirra þátta sem hvað mest hafa verið ræddir. Ég þori að fullyrða að það er ekki himinn og haf milli sjónarmiða í þeim efnum, alls ekki, og ágreiningur um þau mál hefur ekki verið það sem strandað hefur á þegar komið hefur að því að ná niðurstöðu í sambandi við stjórnarskrárbreytingar.

Ég tek þetta fram og tek undir að það þarf að vera skýrari rammi í þessum efnum. Ég tel að það eigi að gera í stjórnarskrá, en það (Forseti hringir.) breytir ekki því að í gangi er ákveðið ferli um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave sem mun fara fram innan tveggja mánaða (Forseti hringir.) og við höfum auðvitað rýmri tíma til að ræða (Forseti hringir.) síðar hvernig við viljum haga þessum málum til frambúðar.