139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

þjóðaratkvæðagreiðslur -- lánshæfismat ríkisins -- bætt stjórnsýsla o.fl.

[14:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að segja frá því að í morgun sat ég fund í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd af því að þeir flokksfélagar mínir úr Samfylkingunni sem þar eiga sæti eru allir í útlöndum. Þar fengum við einkar skemmtilega heimsókn frá loðdýrabændum. Þar eru ekki menn sem berja sér eða barma, þar er allt á uppleið og gengur vel. Framlegð í greininni var um 37,5% á síðasta ári, útflutningsverðmætin yfir milljarð og þeir sjá fram á að þetta haldi áfram að vera mjög góð og gefandi atvinnugrein hér á landi og sakna þess að ekki sé fleira fólk tilbúið til að fjárfesta í henni.

Mér fannst þetta sérstaklega skemmtilegt, líka vegna þess að þeir njóta engra styrkja og voru ekki að biðja um þá, voru ekki að biðja um lög og voru ekki að biðja um neitt. Þeir standa á eigin fótum og vilja gera það áfram. Mér finnst bara einkar áhugavert að svona fólk sé til í þessu landi og vil þakka gestunum fyrir komuna. [Hlátur í þingsal.]