139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

þjóðaratkvæðagreiðslur -- lánshæfismat ríkisins -- bætt stjórnsýsla o.fl.

[14:32]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Það er lenska stjórnmálamanna að segjast ætla að læra af mistökum. Það hefur gilt í þessum sal frá kosningunum 2009 að margt hefur yfir okkur gengið í hruninu. Við eigum að læra af því. Ef okkur stjórnmálamönnum er virkilega alvara með að við ætlum að læra af hruninu, m.a. af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, og vinna okkur út úr þeirri stjórnmálahefð og -menningu sem hér hefur ríkt, vinna okkur út úr því að fá yfir okkur dæmda skýrslu sem segir að stjórnsýslunni í landinu sé ábótavant, skulum við líka fara eftir því og gera það. Þá skulum við breyta og bæta stjórnmálamenninguna og þá skulum við fara yfir stjórnsýsluna og hafa hana í lagi. Þá á ekki að skipta máli, frú forseti, ef við ætlum að ástunda góða stjórnsýslu innan ráðuneyta og innan stofnana á vegum ríkisins og annarra stofnana, hvort samruni stofnana sé af hvötum þeirra sem þar vinna eða ekki vinna. Stjórnsýslan á ekki að orka tvímælis. Ef hún orkar tvímælis eru hlutirnir ekki í lagi hjá okkur, þá höfum við ekki lært af því sem við sögðumst ætla að gera og það er kannski líka kominn tími til að stjórnmálamenn almennt meini stundum það sem þeir segja.