139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

veggjöld og samgönguframkvæmdir.

[15:10]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Í kjölfar efnahagshrunsins fór fram mikil vinna á vegum stjórnvalda og í samráði við aðila vinnumarkaðarins um hvernig hægt væri að koma framkvæmdum í gang aftur þar sem þær stöðvuðust rétt eins og allt annað hér á þeim tíma. Niðurstaða þeirrar vinnu var m.a. sú að fara þá leið sem rætt hefur verið um, þ.e. að fara í svokallaðar einkaframkvæmdir í vegamálum. Það er hárrétt sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, að það hefur aldrei staðið annað til en að fyrir þær framkvæmdir yrði greitt með sérgjöldum.

Á fundum samgöngunefndar um málið, sem voru allnokkrir og fjöldi manns var kallaður fyrir nefndina, kom ítrekað fram sú afstaða nánast allra sem til okkar komu að nauðsyn væri á þessum framkvæmdum og að í þær skyldi farið. Það var einn aðili sem lagðist gegn þeim, það var FÍB ef ég man rétt. Þau samtök tóku í grófum dráttum afstöðu gegn slíkum framkvæmdum sem taka ætti sérstakt gjald fyrir. Það er sjónarmið sem stendur eitt og sér og ekkert við það að athuga.

Íbúar og fulltrúar sveitarfélaganna á svæðinu ræddu sömuleiðis hvaða áhrif gjaldtaka á vegi nálægt heimilum fólks kynni að hafa á lífsgæðin og lífsskilyrðin en ekki var lagst gegn framkvæmdunum sem slíkum.

Nefndin setti eitt skilyrði fyrir afgreiðslu sinni á málinu, það ríkti einhugur í nefndinni við afgreiðslu málsins. Skilyrðið var að ábyrgð ríkisins væri eingöngu á þeim fjármunum sem færu í að stofna viðkomandi hlutafélög, sem væru tvö, og ekki öðru, (Forseti hringir.) kostnaður ríkisins fælist eingöngu í því. Með öðrum orðum mundi ríkið ekki leggja meira fé í framkvæmdirnar en sem því næmi.