139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[14:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er yfirleitt svo jákvæður að manni bregður í brún þegar hann heldur ræður þar sem hann sér ekkert nema sorta og dökkva fyrir augum sér. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ríkisstjórnin hefur hækkað skatta en staðreyndin er samt sem áður sú að skattar á Íslandi eru ekkert hærri en gengur og gerist í Evrópu. Ef hv. þingmaður mundi t.d. skoða skatta á fyrirtæki, fyrirtækjarekstur og fjármagn eru þeir heldur í lægri kantinum og skattahækkanirnar hér hafa ekki verið meiri en hjá íhaldsstjórninni í Bretlandi, guð blessi hana, nýlega.

Því kem ég hingað, frú forseti, til að segja að auðvitað er rétt að þeir á landsbyggðinni búa oft við talsvert önnur og verri skilyrði en við, í fyrsta lagi vegna kostnaðarins hjá þeim sem búa á köldu svæðunum og í öðru lagi vegna flutningskostnaðarins sem leggst á íbúa landsbyggðarinnar. Það vill svo til að þannig viðsjár eru uppi í heiminum núna að líklegt er að hann aukist og ríkisstjórnin getur lítið gert við því. Látum það vera.

Ég kem þó aðallega upp til að segja að á landsbyggðinni er líka margt sem gerir að verkum að þrátt fyrir þetta er eftirsóknarvert að búa þar. Eitt t.d. sem við í þéttbýlinu búum því miður við núna, umfram það sem áður var og umfram það sem íbúar landsbyggðarinnar þurfa við að búa, er atvinnuleysið. Atvinnuleysi mælist því miður miklu hærra á suðvesturhorninu en á landsbyggðinni og það skiptir máli. Ég dreg þess vegna mjög í efa að þessi mikla skattpíningarstefna ríkisstjórnarinnar, eins og hv. þingmaður kallaði það, þrýsti fólki af landsbyggðinni til þéttbýlisins. Ég held að það sé ekki að gerast núna. En hv. þingmaður getur (Forseti hringir.) kannski sannfært mig um annað.