139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[15:30]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem að sjálfsögðu fyrst og fremst hingað upp til að ræða um frumvarpið sem ég er einn flutningsmanna að, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Það hefur verið hér til umræðu og hefur verið farið um víðan völl eins og oft vill gerast þegar rætt er um mál sem hafa ýmsa fleti.

Rétt í upphafi, út af orðaskiptum hv. þingmanna um flutningsjöfnunarsjóð olíuvara, spurði hv. þm. Birkir Jón Jónsson mig, sem fór með málaflokkinn í ríkisstjórn, hvort til stæði að leggja sjóðinn niður líkt og kæmi fram í fjárlagafrumvarpi sem var nýútkomið þá, þetta var í október 2007. Ég svaraði því til að sjóðurinn yrði ekki lagður niður og við mundum leita leiða til að fara heildstætt yfir þessi mál o.s.frv. Því fagnaði hv. þingmaður mjög og margir aðrir þannig að þar með lauk hinni „blóðugu“ baráttu sem nefnd var áðan og náði aldrei lengra. Í þessum eina fyrirspurnatíma tilkynnti ég það sem við höfðum rætt vikum saman, ég og hv. þm. Kristján Möller og margir aðrir, að svo mætti aldrei verða. Við vorum á móti því að sjóðurinn yrði lagður niður og tilkynntum það í þessum fyrirspurnatíma án þess að ræða það sérstaklega annars staðar og urðu heilmikil átök um málið. Eftir stóð ákvörðun okkar. Hvað sem öðrum fyrirætlunum leið var það okkar ákvörðun og það var góð ákvörðun að hætta við að leggja sjóðinn niður. Þótt hann hefði í sjálfu sér ekki haft mikil áhrif á þéttbýlli staði úti á landi hafði það t.d. áhrif á Langanesi og nokkrum svæðum lengst frá höfuðborgarsvæðinu að greiða niður eldsneytisverð.

En aðeins um málið sjálft. Það má vel vera að við hefðum átt að ganga lengra og fastar fram á síðustu 10–15 árum í því að lækka húshitunarkostnað og raforkuverð til garðyrkjunnar sem nefnd var áðan og hefur stundum verið nefnd gjaldeyrissparandi hollustugrein og má til sanns vegar færa. Það er blóðugt þegar farið er að flytja inn vörurnar út af því að raforkuverð er að sliga greinina og draga úr framleiðslumætti hennar sem er mjög mikill.

Þetta höfum við líka rætt í þingsölum árum saman og mikið undanfarin 10 ár. Vonandi bera menn gæfu til að stíga stærri skref í því að lækka verð á raforku til garðyrkjunnar. Sjálfur hef ég oft lýst því yfir í ræðustól Alþingis að besti samjöfnuðurinn við stöðu garðyrkjunnar sé stóriðjan í landinu, það væri langsanngjarnast að selja garðyrkjunni rafmagn sem stórnotanda líkt og álverum og hefðbundinni stóriðju. Það mundi líklega þýða að raforkuverð til garðyrkjubænda lækkaði um meira en helming, allt að 2/3 , ef garðyrkjan yrði skilgreind sem stórnotandi og samið við hana um eitt verð sem hún síðan kæmi til bænda og félagsmanna sinna. Þetta er eitt málið.

Hitt málið snýr að jarðhitaleitinni og þróun orkukostnaðar á köldum svæðum á landsbyggðinni. Eins og kemur mjög vel fram í fylgiskjali með frumvarpinu — sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafði alla forustu af að flytja og bauð okkur að vera með sem við og gerðum, nokkrir félagar úr Samfylkingunni, t.d. hv. þm. Róbert Marshall, hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson og menn úr öðrum flokkum utan Vinstri grænna sýnist mér og Hreyfingar — þá hefur þróunin verið óhagstæð. Sé miðað við síðastliðin 9–10 ár hefur þróunin verið erfið fyrir þessi svæði þó að einhver árangur hafi náðst. Við þurfum svo sem ekkert að fara í djúpar umræður um að staða íbúa þessara dreifbýlli köldu svæða hefur verið og er erfið að mörgu leyti, sérstaklega ef við tökum tillit til vöruverðs, flutningskostnaðar, eldsneytisverðs o.fl. Hún verður það sjálfsagt alltaf að einhverju leyti samanborið við aðstöðuna á höfuðborgarsvæðinu. Á móti má segja að fólk búi við mun lægra verð á fasteignum og ýmislegt annað. Þetta er bara eins og það er, þegar maður velur sér búsetu úti á landsbyggðinni eru búsetukostir aðrir en í þéttbýlinu á suðvesturhorninu.

Eftir stendur það réttlætismál, sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi áðan, að leita sanngjarnra og vitlegra leiða til að lækka húshitunarkostnað sem er náttúrlega algjört grundvallaratriði fyrir fólk vegna kostnaðar við fjölskylduhald, þ.e. húshitunarkostnaðar, leigu eða húsnæðiskostnaðar og afborgana af bíl o.fl. Eins og kemur ágætlega fram er þess ekki að vænta að jarðhitaleit verði haldið áfram að neinu marki þó að það hafi komið fram í heimsókn sveitarstjórnarmanna, sem fara fyrir sérstöku félagi sveitarfélaga á köldu svæðunum, til okkar í fjárlaganefnd í haust að jarðhitaleitinni verði að einhverju leyti haldið áfram og þó að ekki sé verulegum fjármunum varið til þess núna sé samt sem áður verið að leita. Þetta eru þau svæði þar sem ekki hefur enn þá fundist orka í jörðinni til að hita upp húsin. Þess vegna stöndum við frammi fyrir því verkefni að leita leiða til að lækka húshitunarkostnaðinn.

Þetta virðisaukaskattsfrumvarp er gott innlegg. Það er mjög heppileg leið að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar til að stíga skref til lækkunar húshitunarkostnaðar á köldum svæðum.

Sjálfsagt má gera margt fleira og vonandi höfum við borð fyrir báru á næstu missirum til að auka aftur niðurgreiðslu á raforku og húshitunarkostnaði til þeirra köldu svæða sem búa ekki við þá sérstöðu Íslands að geta þó hitað 85%–90% af öllum húsum landsins með ódýrri jarðorku. Það er náttúrlega alveg einstakt. En við þurfum að gæta þess að búsetuskilyrði á þessum svæðum séu jöfnuð að því marki sem hægt er.

Við höfum rætt um leið til að jafna flutningskostnað til að gera vöruverð sambærilegt við það sem er á suðvesturhorninu. Á Suðurlandi og Vesturlandi halda stórverslanir úti verslunum sem gera það að verkum að vöruverð þar er á svipuðum nótum og á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar alla nauðsynjavöru.

Það er verulega íþyngjandi að íbúar á köldu svæðunum hafi þurft að verja hærra hlutfalli tekna sinna til að greiða niður kostnað af upphitun húsa sinna. Það er ekki viðunandi. Þess vegna nær hv. þm. Einar K. Guðfinnsson þeirri breiðu samstöðu um þetta frumvarp. Um er að ræða innlegg til að ná niður kostnaði og kannski nokkuð verulega. Í greinargerð með frumvarpinu er lýst hvað varmadælurnar eru og með hvaða hætti þær skila árangri. Þær eru mjög umhverfisvænt fyrirkomulag. Þær hita vatnið upp og orkuhagkvæmni dælnanna ræðst af hlutfalli þeirrar orku sem fæst frá orkunni sem þarf til að knýja hana. Það er því mikilvægt að gera fólki kleift að kaupa varmadælur, þ.e. lækka stofnkostnaðinn með því að endurgreiða virðisaukaskattinn, til að ná niður húshitunarkostnaði eins og efni standa til út frá þeim breytingum sem hér eru.

Ég styð þetta mál og fagna því mjög að það sé komið fram og vona að það geti gengið hratt í gegnum þingnefnd og orðið að lögum í vor þannig að íbúar á köldu svæðunum geti nýtt sumarmánuðina til þess að koma þessum búnaði upp fyrir næsta vetur.