139. löggjafarþing — 79. fundur,  24. feb. 2011.

afbrigði um dagskrármál.

[15:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um afbrigði og það tengist máli sem fjallar um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Flestum Íslendingum rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þeir heyra á það minnst því að það er upphafið að Icesave-málinu sem við erum búin að ræða mikið í þingsal. Við erum búin að ræða frumvarp hæstv. ríkisstjórnar í hv. viðskiptanefnd í tvö ár, að ég held. Frumvarpið er illa hugsað og gengur ekki upp í sinni einföldustu mynd fyrir okkur Íslendinga. Við höfum hins vegar fallist á að greiða atkvæði um afbrigði um að koma ákveðnum þætti málsins áfram sem snýr að því að fresta greiðslum í sjóðinn um þrjá mánuði. Það gerum við vegna þess að við viljum hjálpa ríkisstjórninni í erfiðum málum. (Gripið fram í.) En það liggur alveg (Forseti hringir.) fyrir, virðulegi forseti, að hæstv. ríkisstjórn verður að hlusta á minni hlutann í því máli, annars fer illa.