139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[14:59]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. varaformanni allsherjarnefndar fyrir yfirferð hans á málinu. Ég tek fram að það frumvarp sem við ræðum var mjög vel unnið þegar það kom inn í þingið og það er ástæða til þess enn og aftur að þakka hv. 1. flutningsmanni sem er forseti Alþingis fyrir þá undirbúningsvinnu sem nú er komin út úr allsherjarnefnd til 2. umr. og hefur ekki tekið miklum breytingum eins og hér hefur komið fram.

Ég vil gera að umtalsefni bráðabirgðaákvæði um að allsherjarnefnd gegni starfi eftirlitsnefndar þingsins þangað til slík nefnd hefur verið skipuð. Það er ljóst að allmargar tillögur liggja fyrir um rannsóknir, m.a. frá allsherjarnefnd um rannsóknir á Íbúðalánasjóði o.fl. og eins frá þingmannanefndinni sem hv. þm. Atli Gíslason veitti formennsku.

Það er mjög mikilvægt að setja almennar samræmdar reglur um meðferð þessara beiðna og ég lýsi yfir stuðningi mínum við það að ég tel sérnefnd mikilvæga. Það þarf líka að setja samræmdar reglur um hvernig taka skuli á niðurstöðum rannsókna. Ég varð hins vegar fyrir nokkrum vonbrigðum með að meðfram þessu frumvarpi skyldi ekki hafa verið gerð sú eina breyting á þingsköpum Alþingis að setja niður þá eftirlits- og stjórnsýslunefnd sem upphaflega var ætlað að fjalla um þetta og ég spyr hv. þm. Atla Gíslason hvort hann telji möguleika á að gera þá breytingu eina einhvern tímann á næstu vikum þannig að allsherjarnefnd þurfi ekki að fjalla um þessar rannsóknarbeiðnir.