139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú erfitt að eiga við svona leigusamninga og auðvitað er það svo fyrir hvaða stofnun sem er, ef hún ætlar að koma sér út úr slíkum samningum sem eru bindandi til margra ára og dýrir. Það eru 17 ár eftir af þeim leigusamningi sem gerður var við landlæknisembættið. Eigum við að binda landlæknisembættið í þessum dýra leigusamningi til 17 ára? Hvað með breytingar og hugmyndafræði um uppstokkun í kerfinu, m.a. eftir þeim leiðbeiningum sem komu fram í tveimur skýrslum? Á að skilja landlæknisembættið eftir þar, að það geti ekki þróast og verið þátttakandi í skipulagsbreytingum næstu 17 árin? Verðum við ekki að horfa til þess að við þurfum húsnæði sem hentar nýju embætti? Við verðum með einhverjum hætti að losa okkur út, annaðhvort með því að endurleigja eða að koma okkur út úr þeim leigusamningi sem landlæknisembættið er í núna. Öðruvísi getum við ekki horft fram á neinar breytingar á landlæknisembættinu sem ég tel að við viljum þó flest gera.