139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það stendur í úttekt frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að hagstæðasta tilboðinu hafi ekki verið tekið. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Þuríði Backman, og þekki það sem forstöðumaður stofnana, að geti maður sjálfur ráðið í einu og öllu hvers konar húsnæði stofnun manns á að vera í skoðar maður kannski annað og meira en eingöngu það peningalega hagstæðasta. En við lifum á þeim tímum að það er verið að skera niður í heilbrigðisþjónustunni um allt land og alls staðar. Á sama tíma finnst okkur eðlilegt að sitja uppi með húsnæði sem 17 ár eru eftir af samningi um og óvíst hvort við getum leigt út og jafnframt að taka á leigu húsnæði sem er allt of stórt fyrir fyrirhugaða stofnun. Við getum verið sammála um það, við hv. þm. Þuríður Backman, að að sjálfsögðu vonast allir til þess að nýjar stofnanir þróist og taki breytingum, að verkefnin aukist og að fleiri stofnanir verði hugsanlega felldar inn í og að um enn stærri sameiningu verði að ræða. Því var ekki að heilsa hér, frú forseti.

Hvað varðar umræðuna um skýrsluna er mér fullljóst hvar þessar skýrslur eru og hvernig hægt er að nálgast þær. Ég gerði það ekki að umtalsefni í ræðu minni. Ég gerði það að umtalsefni að þær voru aldrei ræddar í heilbrigðisnefnd. Þær fengust ekki ræddar vegna þess að meiri hlutinn var búinn að ákveða að frumvarpið ætti að ná fram að ganga eins og það lá fyrir. Þess vegna fengust þær ekki ræddar, frú forseti. En mér er fullkunnugt um hvar ég nálgast skýrslurnar og ég get lesið margar skýrslur um sameiningu stjórnsýslustofnana á heilbrigðissviði. Það var bara ekki til umræðu í þessari nefnd að ræða það að fara fram á að skoða fleiri en eina tillögu. Frumvarpið var tekið úr höndum framkvæmdarvaldsins eins og það birtist og nefndin hefur litlu sem engu breytt.