139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:02]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo sannarlega eigum við að tala í lausnum. Ég vil bara upplýsa hv. þingmann um að nefndarmenn meiri hlutans í heilbrigðisnefnd hafa rætt húsnæðismálin fram og til baka og við viðkomandi ráðherra þannig að ég held að svo sannarlega hafi verið reynt að finna lausnir á málunum.

Mig langar aðeins til að halda áfram með þessa umræðu, þó við ræðum ekki Stjórnarráðið. Mig langar að spyrja hvort hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sjái möguleika á því að setja saman stofnanir svolítið þvert á málaflokka. Nú erum við komin með velferðarráðuneytið — gætu ekki verið heilmikil samlegðaráhrif í t.d. málaflokkum fatlaðra og aldraðra og jafnvel fleiri hópa þar sem við sjáum mikil samlegðaráhrif? Við gætum t.d. verið með eftirlitsaðila sem skoða hvernig aldraðir hafa það á hjúkrunarheimilum en jafnframt athugað hvernig fatlaðir hafi það á heimilum sínum. Við verðum kannski að horfa dálítið upp úr þeim hagræðingargrunni sem við höfum verið í en hv. þingmanni hefur verið mjög tíðrætt um að við eigum að huga að hagræðingu, við eigum að hugsa um peninga og hvernig við getum sparað. Mig langar mjög til að heyra hvað hv. þingmaður hefur að segja um það að við reynum að vinna þetta í sameiningu og dálítið þvert á gömlu málaflokkana, hvort hann sjái tækifærin í því. Við getum á þann hátt jafnvel hagrætt enn frekar en með því að horfa eingöngu á heilbrigðissvið eða eingöngu á félagsmálasvið. Og í tengslum við það hversu mikinn áhuga hv. þingmaður hefur sýnt á eftirlitshlutverkinu og að gott eftirlit sé með heilbrigðismálum, hvort það væri ekki mjög gott að reyna að samnýta þennan stóra málaflokk, velferðarmálin.