139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil aðallega eiga orðastað við þingið í heild sinni og þá kannski ekki síst hæstv. forseta.

Fyrir fáum dögum skipaði Alþingi nýja landskjörstjórn, fimm einstaklinga, allt hæfa einstaklinga, fjóra karla og eina konu. Þetta gerðist mótatkvæðalaust og ég játa fúslega að ég var í þingsalnum og er hluti af glæpnum, ef svo má segja.

En það er nú þannig að í gildi eru jafnréttislög og í 15. gr. þeirra segir, með leyfi forseta:

„Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.“

Það er alveg ljóst að skipanin í landskjörstjórn uppfyllir ekki þennan anda jafnréttislaga og ég lít svo á að Alþingi hafi orðið á í messunni þarna, ekki aðeins varðandi þessa kjörstjórnarkosningu heldur eigi þetta við um ýmsar nefndir og ráð sem þingið hefur verið að afgreiða á undanförnum mánuðum og missirum og allar götur fram til þessa.

Ég vil beina því til hæstv. forseta að vísa frá tillögum og listum sem koma hingað til afgreiðslu ef ákvæði jafnréttislaga eru ekki uppfyllt. Ég tel satt að segja, þegar ég hugsa þetta mál betur, að þessi afgreiðsla, þetta mál, hafi í raun og veru verið óþingtækt. Alþingi setur lögin en Alþingi er ekki hafið yfir lög.