139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:21]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé gott og gagnlegt að ræða þessi mál hér. Við búum í gjöfulu landi með miklum auðlindum og þá er auðvitað mikilvægast af öllu að fara vel með. Ef við göngum á auðlindirnar eru þær okkar bara í skamma stund. Sjálfbærni snýst nefnilega um heildarsýn og raunverulega framtíðarsýn. Þá skiptir máli að hafa heildina undir eins og forveri minn, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, hlutaðist til um þegar hún tók ákvörðun um sameiginlegt umhverfismat á þessu svæði, þökk sé henni fyrir það.

Mig langar sérstaklega í þessu efni að tala um þann hluta sameiginlega matsins sem varðar áhrif á jarðhita og orkuforða. Það er sá hluti sem við verðum að vera hvað best meðvituð um vegna þess að þegar allt kemur til alls snýst þetta kannski fyrst og fremst um raunveruleikann, en ekki svo mikið um pólitískar keilur. Þetta snýst um raunsæi og um það einfaldlega hvernig veruleikinn er þegar við ætlum að breyta jarðhita í rafmagn. Skipulagsstofnun telur í sínu sameiginlega mati verulega óvissu um áhrif af fyrirhuguðum virkjunum á jarðhitaauðlindina og að það séu auknar líkur á því að orkunýtingin verði ágeng í stað þess að vera sjálfbær þegar magnið er svo mikið sem hér er talað um. Ágeng vinnsla gerir ráð fyrir það mikilli orkuvinnslu að það verði að gera hlé í mörg ár eða áratugi eftir tiltekinn tíma til þess að ná upp sama rafmagni. Þetta verðum við að hafa í huga þegar talað er um atvinnuuppbyggingu því að ekki sjáum við fyrir okkur að stórir orkukaupendur fari annað eftir þessa áratugi til að sækja þessa orku.

Þess vegna verðum við í þessum efnum, við sem hér erum vanari að hugsa í kjörtímabilum en öðrum (Forseti hringir.) tímaeiningum, að hugsa um 50 eða 100 ár þegar atvinnuuppbygging á þessu svæði er annars vegar.